Mannlíf

Desember annasamur mánuður
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 06:04

Desember annasamur mánuður

Davíð Jónsson segir að hann sé að verða meira jólabarn með árunum og að ein eftirminnilegasta jólaminning sín sé þegar hann fékk símhringingu á Þorláksmessu og var beðinn um að aðstoða 360 flugfarþega sem voru stopp á Keflavíkurflugvelli með gistingu. Davíð og fjölskylda hafa ávallt nóg fyrir stafni og ætla á nokkra jólatónleika í desember.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið 2023 var mjög skemmtilegt hjá okkur fjölskyldunni en það sem helst stendur upp úr eru allar næturnar sem við sváfum í hjólhýsinu okkar. Við vorum í framkvæmdum heima fyrir og því var langþægilegast að sofa í hjólhýsinu og elta góða veðrið sem oftast má finna einhvers staðar á landinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Ég er að verða meira jólabarn með árunum eftir að ég kynntist konunni minni en hún er mjög dugleg að útbúa jóladagatal með litlum pökkum fyrir krakkana. Reyndar er desember mjög svo annasamur mánuður hjá okkur en konan mín og dóttir eiga báðar afmæli 10. desember og eldri strákurinn minn á svo afmæli 16. desember, á afmælisdegi pabba míns. Byrja því venjulega ekki að hugsa um jólin fyrr en afmælistörnin er búin.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Til að byrja með settum við jólatréð alltaf upp á Þorláksmessu en núna er það oftast um tíu dögum fyrir aðfangadag.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Fyrsta jólaminningin mín er þegar ég var um sex ára gamall að lesa upp jólaguðspjallið í Aðventistakirkjunni. Ein skemmtilegasta jólaminningin mín var fyrir fjórum árum þegar við fjölskyldan vorum að leggja bílnum á Laugarveginum á Þorláksmessu á leiðinni á Nova-svellið. Við hjónin vorum þá tiltölulega nýbúin að stofna fyrirtækið okkar, Hotel Service KEF Airport, og þá var hringt í mig frá flugvellinum og ég beðinn um að aðstoða 360 flugfarþega sem voru stopp á Keflavíkurflugvelli með gistingu. Til þess að redda öllum þessum fjölda þá þurftum við að láta opna nokkur hótel og veitingastaði sem ætluðu að vera með lokað um jólin. Þegar við vorum búin að koma síðustu flugfarþegunum aftur upp á flugvöll var klukkan að nálgast fimm á aðfangadag og ég rétt náði að skreppa í stutta sturtu áður en ég dottaði lítillega í kirkjunni yfir jólaguðspjallinu sem ég kann þó orðið utanbókar.

En skemmtilegar jólahefðir?

Við fjölskyldan förum alltaf á Þorláksmessu og keyrum út jólakortin áður en við löbbum niður Laugaveginn eða Hafnargötuna til að upplifa alvöru jólastemmningu.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Það er aldrei fyrr en á Þorláksmessu eða aðfangadagsmorgun sem ég kaupi síðustu jólagjöfina.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Fara til tengdaforeldranna í hátíðarkvöldverðinn.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Konan mín gaf mér hreinræktaðan, íslenskan hvolp sem er án efa besta jólagjöf sem ég hef fengið. 

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ég var að panta mér nýtt golfsett til að eiga enn séns í strákana mína sem eru að verða nokkuð góðir í golfinu.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Fyllt lambalæri er algjört möst með heimalöguðum ís og fromage í eftirrétt að hætti tengdaforeldranna.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Það er nokkuð stíf dagskrá hjá okkur en helst má nefna jólatónleika Siggu Beinteins í Hörpunni og Heima um jólin með Friðriki Ómari. Þá eru einnig jólatónleikar Tónlistaskóla Reykjanesbæjar þar sem Snorri Rafn, drengurinn minn, er að spila að ógleymdu jólahlaðborði á Grand hóteli í Reykjavík.