Demo gefur út fimm laga plötu
Hljómsveitin Demo frá Reykjanesbæ hefur gefið út EP-plötuna Neistar. Platan inniheldur fimm frumsamin lög og er aðgengileg á streymisveitunni Spotify.
Demo hefur verið starfandi í á þriðja ár, eða frá árinu 2019. Forsprakki sveitarinnar, gítarleikarinn Alexander Grybos, segir að hann hafi sett sig í samband við Reykjanesbæ fyrir Ljósanótt 2019. „Það var svolítið fyndið gigg. Þá sendi ég á Reykjanesbæ og spurðist fyrir hvort það væri möguleiki að fá að spila, ég væri með hljómsveit – en ég var ekki með hljómsveit,“ segir Alexander og strákarnir skella upp úr. „Mig langaði bara að spila. Ég fékk bara strax jákvætt svar og þá þurfti ég að finna þessa hljómsveit og sendi á þessa vitleysinga – og við bara æfðum, náðum fínu prógrammi með okkar lögum og nokkrum cover-lögum.“
Víkurfréttir kíkti á æfingu hjá strákunum og má sjá þá taka lagið Segðu mér satt af EP-plötunni í spilaranum hér að neðan. Viðtal við Demo mun svo birtast í Víkurfréttum á næstunni en hljómsveitina skipa þeir Alexander Grybos (söngur/gítar), Sigurður Baldvin (gítar), Jakob Grybos (pianó), Guðjón Steinn (bassi) og Magnús Már (trommur).