Dauð viðvörun út október
„Rok. Snjókoma. Slæm spá. Það sést varla á milli húsa. Dagurinn hjá lögreglunni á Reykjanesinu hafði byrjað rólega. Einhver útköll vegna ferðafólks sem hafði aldrei áður keyrt í snjó. Önnur vegna stíflaðra niðurfalla. Einn páfagaukur sem hafði sloppið út um opinn glugga, en skilaði sér loks heim. Sem sagt; alls ekki mikið um að vera. Þangað til rúturnar hurfu.“ Svona byrjar fyrsti kafli af sögunni Skólaslit 2: Dauð viðvörun en fyrsti kaflinn kom út í dag. Nemendur grunnskólanna á Suðurnesjum eiga von á nýjum kafla af sögunni á hverjum virkum degi út otkóber.
Skólaslit er lestrarupplifun en í senn átak sem kennsluráðgjafar á Reykjanesi og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson sköpuðu. Ævar skrifar söguna jafnt og þétt út októbermánuð og hægt er að lesa og hlusta á nýjan kafla af henni á hverjum virkum degi á síðunni skolaslit.is.
Búist er við að nemendur og kennarar grunnskólanna, félagsmiðstöðvar og heimilin munu taka virkan þátt í að fylgjast með framþróun sögunnar líkt og í október í fyrra og munum við hjá Víkurfréttum fylgja þeim verkefnum eftir og segja frá þeim á miðlunum okkar.
Hér að neðan má sjá stiklu frá Fjörheimum fyrir Skólaslit 2: Dauð viðvörun.