Danskennari fær menningarverðlaun Grindavíkurbæjar
Harpa Pálsdóttir hefur kennt dans í 40 ár.
Harpa Pálsdóttir danskennari fær Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2015 við hátíðarlega athöfn í Grindavíkurkirkju næstkomandi laugardag við setningu Menningarviku. Þetta var einróma samþykkt í frístunda- og menningarnefnd, en Harpa hefur með þrautsegju staðið fyrir danskennslu í Grindavík hartnær fjóra áratugi. Frá þessu er greint á vefsíðu Grindavíkurbæjar, viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Járngerðar.
Menningarverðlaunineru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.
Harpa Pálsdóttir hefur kennt Grindvíkingum að dansa í rúm 40 ár. Hún er ættuð frá Siglufirði en uppalin í Reykjavík í átta systkina hópi. Það má segja að dansinn sé eitthvað sem fjölskyldan hefur í blóðinu en allar þrjár systur Hörpu eru menntaðar danskennarar. Sjálf útskrifaðist Harpa úr Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar, hálfbróður síns, árið 1974 og hefur kennt dans um allt land allar götur síðan.
Þrátt fyrir að búa í Reykjavík sóttist Harpa eftir því að kenna úti á landi og kenndi ekki bara hér í Grindavík heldur einnig á Akureyri, Vestmannaeyjum og víðar. Árið 1982 flutti hún svo til Grindavíkur. Dætur Hörpu hafa svo fengið dansinn með móðurmjólkinni og bæði kennt og keppt í dansi. Elsta dóttirin, Erla Rut, kennir með móður sinni.
Í viðtali á vef Grindavíkurbæjar segir Harpa grunninn í dansi ávallt vera þann sama alltaf sé verið að læra og kenna ný spor og lotur. „Maður lærir nánast eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég hef verið dugleg við að afla mér þekkingar og kynna mér nýjungar í faginu. Heiðar var duglegur við að senda okkur út að læra, bæði til Englands og Þýskalands og einnig Danmerkur. Þá hef ég einnig farið þrisvar til Kúbu og lært salsa í Listaháskólanum í Havana. Svo koma auðvitað alltaf allskonar tískudansar og ég hef kennt þetta allt saman, diskódansa og fleira, en reyndar aldrei break dans. Ég hef fengið aðra kennara í það.“
Þá segist Harpa alls ekki vera komin með leið á dansi eftir öll þessi ár. „Ég hef stundum sagt að ég verði seint rík á þessu starfi en það er engu að síður afar gefandi. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Þetta er æðislegt starf og það heldur mér ungri. Ég mun örugglega halda áfram þangað til að ég verð komin með göngu-grind!" sagði Harpa við Járngerði að lokum.