Mannlíf

Dansinn heldur okkur frá öllu rugli
Díana Dröfn Benediktsdóttir og Ingibjörg Sól Guðmundsdóttir.
Sunnudagur 19. október 2014 kl. 09:00

Dansinn heldur okkur frá öllu rugli

Nýbakaðir Evrópumeistarar í hópdansi stefna langt.

Sex stúlkur af Suðurnesjum urðu á dögunum Evrópumeistarar í hópdansi. Þær segja félagsskapinn góðan og eru hæstánægðar með kennsluna hjá Danskompaníi. Um er að ræða besta árangur nemenda þaðan frá stofnun þess.



Þrjátíu góðar vinkonur
„Þetta er skemmtileg líkamsrækt og við erum allar mjög góðar vinkonur, erum alls 30 í hópnum sem æfum saman. Félagsskapurinn heldur okkur líka frá öllu rugli og dansinn er alltaf númer eitt,“ segja Ingibjörg Sól Guðmundsdóttir og Díana Dröfn Benediktsdóttir, en þær eru í hópi sex dansara sem urðu Evrópumeistarar í hópdansi á sterku móti, FitKid, sem haldið var um sl. helgi í Vodafone höllinni í Reykjavík. Hinar í hópnum eru Elva Rún Ævarsdóttir, Lovísa Guðjónsdóttir, Sylvía Rut Káradóttir og Sandra Ósk Viktorsdóttir. Þær eru allar af Suðurnesjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hópurinn ásamt þjálfara sínum og eiganda Danskompanísins.

Unnu ferð til Ítalíu
Iðkendur FitKid eru börn og unglingar á aldrinum 6-19 ára og brúar þessi íþrótt bilið á milli fimleika, þolfimi, dans og styrktaræfinga. Keppnin var haldin í annað sinn á Íslandi og þær stöllur unnu ferð og fengu styrk til að sækja æfingabúðir á Ítalíu. „Við förum líklega næsta sumar. Um er að ræða frítt fæði og húsnæði og aðgang að þremur einkaströndum sem skólinn á. Þetta er algjör draumur!“

250 keppendur frá 9 löndum
Ingibjörg og Díana hafa æft dans hjá Danskompaníinu frá stofnun hans fyrir fjórum árum. Áður æfðu þær ýmist jazzballett og fimleika, en þær segja fimleika góðan grunn fyrir dansinn. Sigurdansinn á mótinu hafi verið jazzblandaður en samt kröftugur og harður. „Við áttum að vera grimm dýr og það þurfti gott þol í dansinn því hann er erfiður og tekur á allan líkamann,“ segja þær og bæta við að kennari þeirra og eigandi Danskompanísins, Helga Ásta Ólafsdóttir, sé snillingur í öllu sem hún geri og hafi náð að vinna úr nemendum sínum mjög sterka dansara úr grunninum sem fyrrum eigandi, Ásta Bærings, byggði á. „Enginn frá Danskompaníi hefur náð svona góðum árangri áður. Keppendur á mótinu voru 250 frá níu löndum. Sex hópar kepptu í okkar flokki og fulltrúar Íslands komu frá Danskompanínu og Listdansskóla Hafnarfjarðar,“ segja Ingibjörg og Díana.

Stefna enn hærra
Um 300 nemendur æfa hjá Danskompaníinu og yfir 100 nýskráningar voru á haustönn. Evrópumeistararnir eru staðráðnir í að halda áfram að æfa hjá Danskompaníinu og stefna enn hærra en þær hafa náð í dag. „Við höfum líka verið að dansa dálítið í útöndum, m.a. í New York og London í nemendaferðum. Það eflir dansstílinn og við lærum meiri og fjölbreyttari tækni af öðrum. Helga er útskrifuð sem kennari úr JSB og er dugleg að tileinka sér nýjungar í útlöndum. Við höfum líka fengið erlenda dansara til að koma og kenna okkur,“ segja ungu dansaranir sem eiga sannarlega framtíðina fyrir sér.

VF/Olga Björt