Dansinn dunaði í Selinu
Það má með sanni segja að kynslóðabilið hafi verið brúað í Reykjanesbæ í dag þar sem eldri borgarar og börn úr yngstu bekkjum grunnskóla komu saman í danstíma í Selinu, félagsmiðstöð eldri borgara. Þessi uppákoma var hluti af Forvarnarviku í Reykjanesbæ sem hófst í dag,
Kristjana Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur, var með fyrirlestur um mikilvægi þess að hreyfa sig og huga að mataræðinu. Þá var Bergluind Bára Bjarnadóttir einnig með fyrirlestur um mikilvægi þess að þjálfa hug og hönd.
Þar voru dansskórnir ekki sparaðir heldur og dansað allt frá Macarena upp í Bommsadeisí og allt þar á milli undir stjórn Eyglóar Alexandersdóttur. Gleðin og ákafinn skein úr hverju auga eins og sést best á meðfylgjandi mynd þar sem Hókí pókí er dansaður af lífs og sálar list.
Eftir dagskrána var svo opin handavinnustofa og bridge spilað eins og venjulega.
Fleiri myndir má sjá í Ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-myndir/Þorgils