Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dansandi sveitastelpa úr Garðinum
Sunnudagur 9. febrúar 2014 kl. 13:00

Dansandi sveitastelpa úr Garðinum

- Dirty Dancing uppáhalds myndin

Söngleikurinn Dirty Dancing verður frumsýndur í Andrews Theatre fimmtudaginn 20. febrúar á vegum Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja (NFS). Leikstjóri sýningarinnar er Gunnella Hólmarsdóttir og danshöfundur er Ásta Bærings. Sýningin er byggð á vinsælli kvikmynd frá níunda áratugnum sem sló eftirminnilega í gegn á sínum tíma. Tónlist, dans og drama spila stórt hlutverk í metnaðarfullri sýningu sem NFS stendur nú fyrir. Við tókum Aþenu Eir, unga aðalleikkonu Dirty Dancing tali. Hún er afar spennt fyrir sýningunni og segir að áhorfendur megi eiga von á frábærum tilþrifum.

Hin 16 ára Aþena Eir Jónsdóttir fer með hlutverk Frances „Baby“ Houseman, sem á íslensku kallast einfaldlega Lilla. Aþena sem er fædd og uppalin í Garðinum segist hafa horft á hina vinsælu bandarísku kvikmynd ótal sinnum í æsku. „Guð já, þetta er búin að vera uppáhalds myndin mín síðan ég var lítil,“ segir hún. Þannig að hún ætti líklega að vera með hlutverkið á hreinu? „Það mætti nú segja það,“ segir Aþena og hlær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikið er um dansatriði í sýningunni en sjálf hefur Aþena æft dans frá 10 ára aldri. Hún hefur m.a. stundað freestyle-dans, jazzballet og nútímadans. Um þessar mundir æfir hún hjá Danskompaníi og þar líður henni ákaflega vel. Aþena komst fyrst að í sýningu NFS sem dansari en var síðar beðin um að koma í leikprufu. „Eitt kvöldið var ég beðin um að koma í leikprufur og fékk þar af leiðandi þetta dúndur verkefni,“ segir hún spennt. Aþena er ekki alveg óvön því að leika á sviði en í grunnskóla lék hún iðulega í leikritum á árshátíðum auk þess sem hún hefur oft komið fram sem dansari. Þetta verkefni er ívið stærra en Aþena er vön, en hún segist vera spennt fyrir frumsýningu. „Já það er náttúrulega mjög lítill tilfinningalegur munur á milli spennu og stress, þegar að þessu kemur mun ég ekki vita hvort ég sé spennt eða stressuð, en í augnablikinu er ég ótrúlega spennt.“

Stór hópur kemur að sýningunni sem frumsýnd verður í Andrews Theatre þann 20. febrúar. „Hópurinn er alveg hreint frábær, við erum öll að verða nánari með hverjum deginum,“ segir Aþena en hún segir að áhorfendur megi eiga von á sjúklega flottum dansatriðum í sýningunni. „Verið bara tilbúin!“ segir hún. Tónlist skipar veigamikinn sess í sýningunni og verður Aþena að þenja raddböndin örlítið, en því er hún ekki vön. En gæti dansarinn úr Garðinum hugsað sér að leggja leiklistina fyrir sig? „Kannski svona „on the side,“ þetta heillar mig þó mikið og er ótrúlega skemmtilegt,“ segir Aþena sem stundar nám á viðskipta- og hagfræðibraut hraðferðalínu og stefnir á að útskrifast á þremur árum frá FS. Dansinn er ekki eina áhugamál Aþenu en hún er einnig mikil hestamanneskja og að eigin sögn algjör sveitastelpa.

Sýningin 20. febrúar er ætluð nemendum FS eingöngu en síðar verða þrjár almennar sýningar helgina 21. - 23. febrúar. Miðasala fer einungis fram í gegnum netið á NFS.is.

[email protected]