Dans fyrir alla
Sigríður R. Kristjánsdóttir ( Sigga á Perlunni ) ætlar að lyfta fólki upp í kreppunni og bjóða uppá staka danstíma næstu þrjár vikurnar.
Dansinn fer fram á skemmtistaðnum H-punktinum á Hafnargötunni og er sérstaklega hugsaður til þess að létta lund hjá fólki á þessum erfiðu tímum og gefa fólki kost á að komast í holla hreyfingu. Gleðin verður allsráðandi og er dansinn fyrir alla aldurshópa. Dansinn fer fram á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl 20-21:30 og opnar húsið kl 19:45.
Sigríður segir það algjöra nauðsyn að rífa fólk upp og vill með þessu leggja sitt af mörkum til þess „og hrista aðeins upp í mannskapnum,” eins og hún orðar það sjálf. Hvetur hún alla til þess að kíkja og eins og fyrr segir verður þetta í gangi næstu þrjár vikurnar. Aðgangseyrir er 500 kall fyrir hvert skipti og eru Suðurnesjamenn hvattir til þess að mæta og skemmta sér.
„Allir geta dansað og verður gaman að sjá hversu margir nýta sér þetta í kuldanum og því erfiða árferði sem nú ríkir. Það er ekkert sem léttir lundina betur en hress og skemmtilegur dans!” segir Sigga.
Þess má geta að Sparisjóður Keflavíkur lagði þessu verkefni lið og vilja forsvarsmenn hans endilega hvetja fólk til þess að taka þátt.
Fyrsta danskvöldið verður fimmtudagskvöldið 6. nóv næstkomandi. Allar frekari upplysingar veitir Sigga í síma 899 0455.
Mynd/Nýmynd: Sigríður R. Kristjánsdóttir býður upp í dans.