Dans ársins úr Grindavík
Síðustu árin hafa danskennarar keppt sín á milli um titilinn dans ársins. Þar er leitast eftir því að semja einfaldan dans sem allir geta auðveldlega lært og þykir frumlegur og skemmtilegur. „Það er skoðað hvort að dansinn sé smart, lagið sé skemmtilegt og dansinn auðveldur,“ segir Harpa Pálsdóttir danskennari frá Grindavík sem á dans ársins í ár. „Þetta er dans sem kemur til með að vera kenndur í öllum skólum á landinu.“
Harpa segir dansinn hafa orðið til þegar að hún og Erla Rut dóttir hennar ákváðu að nota lag Friðriks Dórs, Til í allt, og semja við það flottan dans. „Við komum báðar með hugmyndir og úr varð þessi skemmtilegi dans, þannig að við eigum hann saman.“
Harpa er þaulreyndur danskennari en hún hefur kennt dans í hvorki meira né minna en 40 ár. „Ég held alltaf að ég sé enn 25 ára og er alltaf í jafngóðu formi. Það er alltaf jafn skemmtilegt að dansa mörgum sinnum í viku og ég þarf allavega ekki að kaupa mér líkamsræktarkort. Svo er bara svo gaman að vera alltaf að hitta nýtt fólk,“ segir Harpa hress. Harpa rekur Dansskóla Suðurnesja sem í Grindavík en jafnframt kennir Harpa í Reykjanesbæ, Sandgerði, Garði og Vogum.
Um þessar mundir er danskennsla að hefjast og dansarar sem Harpa hefur á sínum snærum eru frá fjögurra ára og uppúr. Annars er öll dansflóran kennd í skólanum; freestyle, breik, Michael Jackson dansar, salsa og svo að sjálfsögðu samkvæmisdansar.
Það stendur til að dans þeirra mæðgna verði kenndur í skólanum hjá Hörpu og svo er væntanlegt myndband af dansinum á veraldarvefinn innan skamms. „Þannig getur fólk heima í stofu lært dansinn fljótlega, annars erum við að kenna dansinn í skólanum fyrst,“ segir Harpa.
Er þetta næsta dansæðið, næsti Macharena?
„Kannski ekki Macharena, en þó kemur alltaf einhver dans sem að fólk á auðvelt með að læra og er skemmtilegur. Manni þótti rosalega flott að dansa Macharena á sínum tíma, maður var flottastur á gólfinu þegar maður tók þann dans.“
Harpa sagði að lokum að það sé skemmtileg hugmynd að velja dans ársins á hverju ári og að það sé heiður að hennar dans hafi hlotið nafnbótina nú í ár.