Danir heimsóttu Myllubakkaskóla
10. bekkur Myllubakkaskóla fékk góða gesti í heimsókn í liðinni viku. Um er að ræða nemendur frá Aarupskolen á Fjóni í Danmörku. Þessir skólar fengu styrk úr Nordplus sjóðnum sem styrkir samskiptaverkefni og nemendaheimsóknir milli Norðurlandanna. Síðastliðið haust heimsóttu nemendurnir úr Myllubakkaskóla Danmörku og áttu þar skemmtilega viku. Í vetur hafa svo þessir nemendur unnið ýmis sameiginleg verkefni undir stjórn kennara sinna til að efla kynnin og kynnast siðum og venjum beggja landa enn betur.
Meðan Danirnir dvöldu hér sóttu þeir m.a. kennslustundir með 10. bekkingum, ferðuðust um Reykjanesið og heimsóttu söfn. Heimsókninni lauk svo með þátttöku í íþróttadegi skólans og svo sameiginlegri máltíð í skólanum á föstudagskvöld áður en gestirnir flugu heim á leið.
Verkefni af þessu tagi eru einstaklega vel til þess fallin að glæða áhuga nemenda á dönskunáminu svo um munar og varla hægt að hugsa sér skemmtilegri leið til að ljúka grunnskólagöngunni. Þátttaka foreldra í svona verkefni er óumflýjanleg og verður að segjast að allir hafi lagst á eitt til að gera þessa heimsókn eftirminnilega og góða í alla staði.