„Dálítil hugsjón í þessu hjá mér“
Glæný og vinaleg hannyrðaverslun í Grindavík.
Fyrir skömmu var opnuð ný hannyrðaverslun í Grindavík að nafni Gallery Spuni. Víkurfréttir ráku inn nefið.
Sófasett og heitt á könnunni
„Mig hefur alltaf dreymt um að opna hannyrðaverslun og er þetta því frábær viðbót við þau vörumerki sem ég hef nú þegar upp á að bjóða.“ Segir Guðbjörg Bjarnadóttir, eigandi Gallery Spuna. Verslunin er staðsett að Gerðarvöllum 17, í sama húsi og Hérastubbur bakari. Guðbjörg segir vöruúrvalið fjölbreytt og skemmtilegt, svo sem tölur, risavaxið garn frá Bandaríkjunum, vinsælt garn frá Mayflower, föndurpakkningar frá Ólátagarði svo fátt eitt sé nefnt. „Hér eru allir velkomnir og við erum með sófasett og heitt á könnunni og alls konar námskeið eru í undirbúning hjá okkur. Við viljum að fólki líði vel og hafi stað til að hittast á og hafa það notalegt.“ Móðir Guðbjargar sá um heimasíðugerð og systir hennar um alla grafíska hönnun. Svo hjálpar dóttir hennar, Þórunn Eva Guðbjargar Thapa, einnig til.
Vill bjóða aðstoð sína
Guðbjörg segir að langþráður draumur sinn sé að rætast. „Ég hef alltaf verið mikil handavinnukona en opnaði líka bókhaldsskóla og bókhaldsstofu. Hef einnig sjálf hannað í um 15 ár og viðað að mér efni. Ætla að reyna að vera með námskeið í hverjum mánuði en fólk getur einnig komið, sest niður með sína handavinnu og fengið ráð. Ef það vantar smotterí upp á að halda áfram þegar komið er í strand þá get ég hjálpað. Dálítil hugsjón í þessu hjá mér því ég kenndi í 15 ár og fannst það æði. Hef gaman að því að vera með fólki og aðstoða. Hér næ ég að sameina allt það sem er skemmtilegt á einn stað.“ Opnunartími verslunarinnar er mánudaga til fimmtudaga frá kl. 12-18 og föstudaga frá kl. 11-13. Utan afgreiðslutíma eru allir velkomnir ef Ullmax bílinn fyrir utan.
Sjá nánar á facebook síðu Gallery Spuna
VF/Olga Björt