Dagurinn lengist óðum
Dagsbirta hefur aukist töluvert undanfarið og við það léttist brúnin á mörgum. Við kynntum okkur hvernig þetta virkar allt saman þegar sól hækkar á lofti.
Þegar daginn fer að lengja fyrst eftir vetrarsólstöður, virðast áhrifin meiri síðdegis en að morgninum. Fyrstu dagana seinkar jafnvel sólarupprásinni, gagnstætt því sem búast mætti við, svo að sólin kemur upp örlítið seinna á jólum en á sólstöðunum. Þetta stafar af því að hádegið - sá tími þegar sól er hæst á lofti - er að færast til, þ.e. hádeginu seinkar eftir klukkunni að dæma.
Með sólarhring er átt við þann tíma sem líður frá því að sól er í suðri þar til hún er aftur í suðri. Um vetrarsólstöður er lengd sólarhringsins nálægt hámarki, um það bil hálfa mínútu fram yfir 24 stundir. Þess vegna seinkar hádeginu lítið eitt frá degi til dags.
Örasta breyting t.d. á Suðvesturlandi er tæpar 7 mínútur á dag, en meðaltalið er 5,6 mínútur. Á Akureyri er meðalbreytingin 6,8 mínútur á dag, en örasta breytingin um 8 mínútur á dag. Á Suðurvesturlandi er stysti sólargangur 4 stundir og 9 mínútur, en sá lengsti 21 stund og 10 mínútur.
Um vetrarsólstöður verður tvennt til að lengja sólarhringinn: nálægð sólar við jörð, sem eykur sýndarhreyfingu sólar miðað við fastastjörnurnar, og staða sólar syðst í árlegri sveiflu á himni, sem verður til þess að hreyfingin beinist í austur og áhrif hennar magnast. Þetta skýrir hvers vegna hádeginu seinkar svo mjög frá degi til dags einmitt á þessum tíma, en því fylgir jafnmikil seinkun á sólarupprás og sólsetri. Sólarupprás verður því seinna en við mætti búast og sólsetur sömuleiðis, fyrst eftir að daginn fer að lengja.
Þegar sól er á norðurleið eftir vetrarsólstöður verður síðdegið, þ.e. tíminn frá hádegi til sólarlags, aðeins lengri en árdegið, tíminn frá sólarupprás til hádegis. Þetta stafar af því að við sólsetur er sólin komin örlítið lengra til norðurs en hún var við sólarupprás. Á sama hátt verður árdegið lengra en síðdegið þegar sól fer að lækka á lofti eftir sumarsólstöður. Munurinn er mestur rúmum mánuði fyrir og eftir sumarsólstöður og nemur þá tveimur og hálfri mínútu á Suðvesturlandi.
Heimild: Almanak Háskóla Íslands.