Dagstjarnan 2015
– Ljóðasamkeppni Unu í Sjólyst
Hollvinir Unu í Sjólyst efna til ljóðasamkeppni á Suðurnesjum. Keppt er í þremur flokkum. Grunnskólabörn á aldrinum 6-9 ára – 10-13 ára – 14-16 ára.
Reglur eru einfaldar: Ljóðið má ekki hafa birst áður. Æskilegt er að það fjalli um Suðurnesin á fallegan og jákvæðan hátt, t.d. náttúruna, fuglalífið, staði eða einstaklinga, t.d. Unu. Dómnefnd mun velja sigurljóðin. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir besta ljóðið í öllum flokkum en auk þess fá tvö ljóð í viðbót viðurkenningu. Ljóðin skal merkja með dulnefni og aldri höfundar og senda í lokuðu umslagi, merkt Dagstjarnan, á bæjarskrifstofu Garðs, heimilsfangið Sunnubraut 4, 250 Garður. Nafn höfundar, heimili, sími og aldur skal fylgja með í öðru lokuðu umslagi merkt sama dulnefni. Skilafrestur rennur út 16. nóvember, sem er dagur íslenskrar tungu. Vinningsljóðin verða tilkynnt á aðalfundi hollvina 13. desember 2015. Þar mun einnig fara fram fjáröflunarskemmtun til minningar um Unu Guðmundsdóttur. Vinningshafa lesa upp ljóðin sín.
Öll innsend ljóð verða geymd í Unuhúsi undir dulnefni, nema höfundur óski annars. Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Magnússon – [email protected]
Una í Sjólyst var þjóðþekkt kona og margir, er láta sig andleg málefni varða, muna eftir henni. Hún var skyggn; sá og heyrði framliðna og huldufólk, fór sálförum og fékk vitranir um framtíðina. Fólk kom víða að og leitaði liðsinnis hennar í málum þar sem veraldlegri úrlausnir þóttu ekki duga. Una sá um starf barnastúkunnar Siðsemd Nr. 14 í áratugi, sat í fyrstu stjórn Slysavarnardeildar kvenna í Garði og var bókavörður við bókasafn ungmennafélagsins Garðars um langt skeið, en bókasafnið var á háaloftinu heima hjá henni í Sjólyst.
Una átti sjálf mikið bókasafn, sem hún leyfði góðfúslegan aðgang að. Þótt Una hefði ekki verið langskólagengin, nam hún erlend tungumál sér til gagns. Hún þýddi sögur og sagnir úr dönsku, sem síðan voru fluttar sem leikþættir á stúkufundunum. Hún stjórnaði þeim oftast sjálf og fyrir kom að hún brá sér á leiksviðið, en ekki nema því aðeins að mikið lægi við, eins og á 50 ára afmæli barnastúkunnar, þegar Sigurður Jóhannesson (seinna í Leikfélagi Kópavogs) veiktist daginn fyrir afmælið, en hann átti að leika litla Pétur. Nú voru góð ráð dýr, en Una gekk í hlutverkið við mikinn fögnuð hátíðargesta. Lét meira að segja hafa sig í að syngja, sem var ekki hennar sterka hlið. Ein vísan sem hún söng, talar sínu máli um hvað Una gat ort skemmtilega, en með þá hæfileika fór hún fremur dult:
Ég syng nú þetta litla ljóð
og lag sem ég hef búið.
Frissi, ég hef falleg hljóð,
en finnst þér lagið snúið.
Af öðrum félagsstörfum Unu má nefna framlag hennar til leiklistar í byggðarlaginu en hún stjórnaði hópi áhugafólks um leiklist, sem hún gaf nafnið Litla leikfélagið. Voru það ungmenni sem tekið höfðu ástfóstri við Thalíu í stúkunni, en vildu gjarnan halda áfram eftir að bernskudögunum lauk. Uppfærslurnar voru vandaðar enda var leiklist Unu mjög eðlislæg, eða öllu heldur meðfæddir hæfileikar.
Markmið Hollvina Unu í Sjólyst er að vernda Sjólyst, halda minningu Unu á lofti og safna heimildum um hana. Gera Sjólyst að minjasafni og fræðasetri um dulræn málefni. Á safninu verða varðveittir munir frá Unu og úr Gerðahverfinu, útgerðinni, atvinnuháttum, mannlífi, félagslífi og slysavarnadeildinni. Hugmyndin er að opna aftur bókasafn í Sjólyst, með bókum um andleg málefni, bókum frá Unu og bókum sem Hollvinir og aðrir gefa Sjólyst.