Dagskrá Náttúruviku í dag
Dagskrá Náttúruviku á Reykjanesi hófst í gær með uppákomum í Grindavík, Sandgerði og Reykjanesbæ. Í dag verður aldið áfram með fjölbreytta dagskrá. Í dag er eftirfarandi á boðstólnum:
Grindavíkurbær – 11:00 – 18:00. Saltfisksetur Íslands.
Hefðbundin saltfisksýning auk listsýningar í Saltfisksetri Íslands, Hafnargötu 12a.
Sandgerðisbær – 09:00 – 17:00. Fræðasetrið.
Til sýnis skelja og kuðungasafn, lifandi sjávardýr, uppstoppaðir fuglar og margt fleira. Fjörulíf. Alla dagana geta gestir fengið búnað til að fara í fjöruferðir og kynnst fjölbreyttu lífríki fjörunnar.
Maðurinn í náttúrunni. Með listaverkinu “Óður til hafsins” minnir unga fólkið okkur á umgengni okkar við náttúruna. Til sýnis í anddyri Fræðasetursins.
Fuglar á Sandgerðistjörn. Fuglaskoðunarhús til afnota fyrir alla.
Nánari upplýsingar í afgreiðslu Fræðasetursins og í síma: 423 7551. Opnunartímar: Virka daga: 09:00 - 17:00. Helgar: 13:00 - 17:00.
Sveitarfélagið Garður – kl. 10:00. Sjóstangveiði af bryggjunni;
Mæting við bryggjuna kl. 10:00. Leiðsögumaður Oliver Keller/Pálmi Sturluson. Leiðsögnin tekur um 2 tíma. Allir áhugasamir velkomnir og er leiðsögnin ókeypis. Þátttakendur hafi með sér veiðistangir og það sem þarf til veiðanna.
Sandgerðisbær - kl. 17:00 - 19:00. Fjöruskoðun.
Náttúrustofa Reykjaness býður upp á fjöruskoðun í fjörunni við innsiglingarmerkið sunnan við kjúklingabúið. Umsjón Sigríður Kristinsdóttir. Sagt verður frá kortlagningu fjörunnar á Reykjanesskaga og lífríki fjörunnar skoðað. Mæting við innsiglingarmerkið sunnan við kjúklingabúið. Klæðnaður eftir veðri. Allir velkomnir.
Reykjanesbær – kl. 20:00. Ganga.
Gengið um Rósaselsvötn með Konráði Lúðvíkssyni fyrrum formanni Skógræktarfélags Suðurnesja. Sagt verður frá skipulagi skógræktar á svæðinu og hugmyndum um verndun Rósaselsvatna. Mæting við Duushús. Ekið að Rósaselsvötnum. Gangan tekur 2 klst. Allir velkomnir - enginn aðgangseyrir.