Mannlíf

Dagdvöl aldraðra fagnar 25 ára afmæli
Vox Felix söng á Nesvöllum við mikinn fögnuð.
Miðvikudagur 6. desember 2017 kl. 06:00

Dagdvöl aldraðra fagnar 25 ára afmæli

Dagdvöl aldraðra í Reykjanesbæ fagnaði 25 ára afmæli nú á dögunum en boðið var til veislu á Nesvöllum í tilefni þess síðasta dag nóvembermánaðar.

Inga Lóa Guðmundsdóttir, fyrrum forstöðumaður Bjargarinnar, fór þar yfir söguna, velunnarar Dagdvalarinnar tóku til máls og Vox Felix kórinn söng við mikinn fögnuð. Eins og góðri afmælisveislu sæmir var boðið upp á kræsingar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í sögu Dagdvalar aldraðra í flutningi Ingu Lóu kom fram að félagsþjónustan í Keflavík hefði ákveðið að opna dagvist fyrir eldri borgara árið 1992 eftir könnun þar sem fram kom þörfin fyrir slíka þjónustu, en dagdvöl er stuðningsúrræði fyrir aldraða sem búa í heimahúsum.

Dagdvölin var til húsa að Suðurgötu 12-14 en þann 23. september 1992 komu fyrstu dvalargestirnir í dagdvölina. Þá hafði leyfi fengist frá heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu fyrir tíu einstaklinga á dag. Starfsemin er fjármögnuð með daggjöldum frá ríkinu en bærinn leggur til húsnæði og rekstur þess.
Það var fljótlega ljóst að þetta væri úrræði sem hentaði öldruðum bæjarbúum vel og að húsnæðið væri ekki nógu stórt og því var reynt að fá fleiri leyfi frá ráðuneytinu. Árið 2008 var starfsseminni skipt upp í almenna dagdvöl og dagdvöl fyrir minnissjúka. Almenn dagdvöl fluttist í þjónustumiðstöðina að Nesvöllum, Njarðarvöllum 4, í apríl 2008 og þar eru nú leyfi fyrir fimmtán einstaklinga.  Dagdvöl fyrir minnissjúka flutti síðan í Selið, Vallarbraut 4, í maí 2008 og í dag eru leyfi fyrir ellefu minnissjúka einstaklinga.

Forstöðumaður öldrunarþjónustu á Nesvöllum er María Rós Skúladóttir.