Daði Guðbjörnsson sýnir í Listasafni Reykjanesbæjar
Næstkomandi laugardag, 19. janúar, verður opnuð sýning á nýjum olíumálverkum Daða Guðbjörnssonar í Listasafni Reykjanesbæjar og ber sýningin heitið Dans elementanna.
Daði er einn af þekktustu listamönnum landsins og hefur haldið fjölda sýninga hér heima og erlendis. Hann nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Ríkisakademíuna í Amsterdam.
Í texta Kristínar G. Guðnadóttur í sýningarskránni sem gefin er út af þessu tilefni segir m.a.: “Elementin fjögur eða höfuðskepnurnar – vatn, loft, jörð og eldur eru áberandi í nýjum verkum Daða og skapa umgjörð eða leiksvið táknanna í formi landslags eða margræðs myndrýmis.”
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum. Þar er opið alla daga frá kl. 11.00-17.00 og aðgangur er ókeypis. Sýningin Dans elemetanna stendur til 9. mars.