Crossfit fólk lætur gott af sér leiða
Crossfit íþróttin er sannarlega búin að riðja sér til rúms hér á Íslandi og þar eru Suðurnesin engin undantekning.
Nú ætlar Crossfitfólk hér í Reykjanesbæ að láta gott af sér leiða og halda sérstakt góðgerðar Wod( workout of the day, æfingu dagins) núna á fimmtudag þar sem þáttökugjald, sem er 2.500 krónur, rennur til styrktar FSMA félaginu á Íslandi.
Bjarni Sigurðsson ætlar sér að gera gott betur en að taka þátt í Crossfit söfnunni á fimmtudag en hann mun hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn ásamt konu sinni Kristjönu Margréti Harðardóttur. Kristjana er með SMA taugahrörnunarsjúkdóm og hefur síðastliðin þrjú ár þurft að styðjast við hjólastól. Bjarni ætlar því að hlaupa með hana í sérstökum hlaupa hjólastól.
Kristjana var ákaflega þakklát fyrir hlýhug í hennar garð þegar blaðamaður Víkurfrétta heyrði í henni nú í hádeginu. „Þetta er bara stórkostlegt og ég átti engan veginn von á þessu. Ég er alveg æðislega þakklát fyrir þetta framtak,“ sagði Kristjana.
Bjarni hljóp 10 km í Reykjarvíkurmaraþoninu í fyrra og safnaði þá 100 þúsund krónum fyrir FSMA samtökin.
„Hann hljóp í fyrra og stóð sig vel. Hann hafði svo gaman af þessu að hann langaði að leyfa mér að upplifa þetta með honum í ár,“ stefnan var að hlaupa á næsta ári en Krisjana segir að síðan Bjarni hafi byrjað að æfa Crossfit í byrjun árs þá hafi áætlanir þeirra breyst. „Hann er bara kominn í svo gott form að við ákváðum að taka þátt núna í ár,“ en Bjarni ætlar aftur að fara 10 km, en nú er Kristjana með í för. Kristjana greindist með sjúkdóminn þegar hún var rúmlega eins árs gömul. Hún hefur enn styrk í fótum en hún hefur undanfarin ár þurft að notast við hjólastól.
Crossfit tíminn til styrktar framtakinu fer fram núna á fimmtudag frá klukkan 17-19 hjá Crossfit Reykjanesbæ. Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta mætt þar á Holtsgötu 52 í Njarðvík eða styrkt Bjarna og Kristjönu á hlaupastyrkur.is.