Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

COVID-19 er dauðans alvara
Guðný Kristín Bjarnadóttir segir lesendum sögu sína en hún og fjölskylda hennar urðu illilega fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum COVID-19.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 17. ágúst 2020 kl. 09:24

COVID-19 er dauðans alvara

Fólk á erfitt með að ímynda sér þau skelfilegu áhrif sem veiran getur valdið

Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur markað djúp spor í okkar daglega líf og kemur til með að hafa varanleg áhrif á líf okkar allra. Við höfum séð heimsmyndina taka stórkostlegum breytingum á ótrúlega skömmum tíma og allir hafa þurft að endurskoða sinn lífsmáta.
Nú þegar „önnur bylgja“ faraldursins hefur verið að herja á Íslendinga eftir að búið var að kveða veiruna niður og þjóðin þarf aftur að takast á við kórónuveiruna heyrast enn raddir sem vilja meina að COVID-19 sé alls ekki eins alvarlegt og haldið sé fram. Það er áberandi hve margir eru ekki tilbúnir að samþykkja þá lífskjaraskerðingu sem fylgir þeim takmörkunum sem sóttvarnalæknir leggur til að farið sé eftir til að vinna bug á veirunni – hugarfarið „þetta gerist ekki fyrir mig“ er of algengt og fólk kærulaust.
Það er þetta hugarfar sem var til þess að Guðný Kristín Bjarnadóttir samþykkti að veita lesendum Víkurfrétta innsýn í reynsluheim þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á COVID-19 en hún og fjölskylda hennar gengu í gegnum hræðilega lífsreynslu sem valdið hefur sárum sem munu aldrei gróa að fullu.

Hjónin Guðný Kristín Bjarnadóttir og Jónas Finnbogason eru bæði fædd og uppalin á Ísafirði. Eins og margt ungt fólk héldu þau í nám til Reykjavíkur þar sem þau svo ílengdust. Þegar þau fluttu í bæinn voru þau tvö með þrjú börn en fyrr en varði höfðu þrjú til viðbótar bæst í hópinn. Þar sem húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu var hærra en ung og barnmörg fjölskylda hafði ráð á varð það úr að þau festu kaup á húsnæði í Sandgerði þar sem þau búa. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með þeim hjónum og fékk að heyra sögu þeirra.

Sumarfrí á Vestfjörðum

Þegar við setjumst niður er fjölskyldan nýkomin úr sumarfríi sem þau vörðu í sumarbústað fjölskyldunnar í Haukadal í Dýrafirði. Þau ferðuðust lítillega um Vestfirðina auk þess að verja tíma með pabba Guðnýjar sem býr á Ísafirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það má segja að tíminn fyrir vestan hafi farið í að sleikja sárin,“ segir Guðný. „Maður vill ekkert vera að ferðast mikið í þessu ástandi, við kíktum á Bíldudal en megnið af tímanum vorum við inn á Ísafirði með pabba.“

– Þið fenguð nú að kynnast kórónuveirunni, ertu til í að segja okkur ykkar upplifun af því sem gerðist?

„Já, við fengum heldur betur að kynnast COVID-19. Þetta hófst þannig að við fórum, foreldrar mín, ég, systir mín og maðurinn hennar, til Kanaríeyja í mars. Sólarhring eftir að við komum til Kanarí byrjaði pabbi að veikjast og við héldum að þetta væri eitthvað eftir ferðalagið, hann væri bara eitthvað slappur. Svo versnaði honum bara alltaf þannig að við erum nokkuð viss að hann hafi smitast á Íslandi áður en við fórum út – en hann sýndi aldrei þessi Covid-einkenni sem alltaf var verið að hamra á svo við vorum eiginlega bara á því að þetta gæti ekki verið Covid. Svo fórum við systurnar heim en þau ætluðu að vera lengur og önnur systir okkar ætlaði út til þeirra. Þegar ég lendi hérna þann 14. mars virðist allt vera farið af stað, bara á þeim stutta tíma sem það tók okkur að fljúga heim. Þá er búið að setja á útgöngubann á Kanarí, allir sem koma heim eru settir í sóttkví og þar fram eftir götunum. Þá fór allt í gang við að koma þeim heim enda var pabbi fárveikur úti – en eins og ég segi þá var hann aldrei með þessi dæmigerðu einkenni. Mamma og pabbi komu svo heim aðfaranótt 19. mars og ég sótti þau á flugvöllinn. Pabbi, sem var að verða áttræður, stóð þá varla undir sér og þau voru alveg búin á því.“

Hver vísar á annan

„Strax morguninn eftir að þau komu heim fór ég að leita eftir hjálp fyrir þau, fá lækni eða eitthvað því við máttum auðvitað ekki mæta á heilsugæsluna. Hjúkrunarfræðingar sögðu okkur að hafa samband við heilsugæsluna, heilsugæslan benti á 1700 sem vísaði á heilsugæsluna – allir vísuðu hver á annan. Ég hringdi á neyðarlínuna en það var talið betra að tala fyrst við lækni þar sem ekki var talið að hann væri með Covid. Þetta endaði svo á því þegar Jónas kom heim úr vinnu síðdegis og sá hvað pabbi var veikur að hann hringdi aftur í neyðarlínuna og við sögðumst þurfa að fá bíl núna því værum búin að gefast upp á að leita aðstoðar.

Þegar sjúkrabíllin loks kom var pabbi orðinn svo máttfarinn að það þurfti börur til að færa hann í sjúkrabílinn og skömmu eftir að hann er farinn er hringt í mig. „Hvert eigum við að fara með hann?“ Þeir vissu ekkert hvert ætti að fara með hann, þetta er auðvitað í byrjun faraldursins og enginn vissi neitt en það endaði á því að það var farið með hann á Landspítalann og hann lagður inn á A7, Covid-deildina. Svo kom í ljós daginn eftir að hann var með Covid.“

– Þá var hann búinn að vera veikur í tvær vikur eða hvað?

„Já eða lengur. Hann var búinn að vera slappur í einhvern tíma og sennilega veikur í meira en tvær vikur.“

Öll fjölskyldan í sóttkví

„Ég var auðvitað búin að vera í sóttkví en nú var öll fjölskyldan sett í sóttkví og pabbi var auðvitað á spítalanum. Við máttum ekkert hitta hann, sýkingin var alltaf á uppleið hjá honum en svo fyrir eitthvað kraftaverk fór honum að batna. Þær voru mjög hissa á því á spítalanum hvað hann hefði náð sér fljótt en hann var þar í fjórar nætur og var þá sendur heim. Pabbi var ennþá veikur en sýkingin var á niðurleið og hann var að taka lyf, gera öndunaræfingar og svo vorum við í sambandi við hjúkrunarfræðing á hverjum degi.“

– Var hann heilsuhraustur fyrir þetta?

„Já, hann er auðvitað fullorðinn en fyrir utan að hafa fengið krabbamein fyrir nokkrum árum sem var skorið í burtu þá var hann nokkuð heill heilsu. Í dag er hann líkamlega heilsuhraustur en andlega hliðin kannski ekkert upp á það besta.

Þarna vorum við hjónin, mamma og fimm börn komin í sóttkví og pabbi í einangrun. Svo veiktust mamma og Jónas á sama tíma, þau fóru saman í sýnatöku sem sýndi jákvætt og þá voru þau komin í einangrun.“

Sjálfskipaðir hjúkrunarfræðinginn standa vaktir

„Ég og elsta dóttir mín urðum eiginlega sjálfskipaðir hjúkrunarfræðingar við þetta og tókum vaktir til að fylgjast með þeim, hún tók næturvaktir og ég dagvaktir. Ég hafði keypt súrefnismettunarmæli og við þurftum að fylgjast með súrefni og hita, svo þurfti að elda og fá þau til að borða og allt þetta. Þar sem við vorum í sóttkví og enginn mátti koma inn á heimilið var litla aðstoð að fá og við gerðum það sem við gátum.

Þau veiktust bæði alvarlega en mamma var með undirliggjandi sjúkdóma og við þurftum að fylgjast mjög vel með henni, skráðum allt niður; hitann, mettunina og ég talaði við hjúkrunarfræðing á hverjum degi. Svo fór mettunin að hrapa niður og ég vildi láta líta á hana en mamma bar sig vel, sagðist bara vera svolítið þreytt. Það var úr að sjúkrabíll var sendur eftir henni bara til að láta líta á hana. Hún vildi engar börur og ég studdi hana út í sjúkrabílinn sem fór með hana á spítalann.

Skömmu eftir komuna á spítalann hrakaði henni mjög og strax daginn eftir var hún komin í tólf lítra af súrefni.“

– Hvað þýðir það?

„Fimmtán er hámark, næst skref eftir það er bara öndunarvél.“

Biðin

„Fljótlega var mamma komin í fimmtán lítra af súrefni og ég var í stöðugu sambandi við lækni og hjúkrunarfræðinga, átti í fínum samskiptum við þau. Það var bara verið að bíða og sjá og alltaf að vonast eftir því að hún færi að taka við sér.

Á mánudeginum fékk ég að fara í heimsókn til mömmu, við höfðum ekkert fengið að hitta hana nema maðurinn minn og pabbi því þeir voru sýktir. Jónas hafði verið svo veikur daginn áður að hann hafði farið á göngudeildina og fengið vökva í æð svo hann var hressari þennan dag. Ég fór inn um sérinngang og var klædd í þessa múnderingu til að hitta mömmu. Það var svolítið áfall að sjá hvað hún var rosalega veik, með súrefnisslöngur í nefinu og maska. Svo var maður að reyna að tala við hana og strjúka með hanska. Hún gat lítið talað, var svo móð og þótti vont að taka maskann af. Ég var hjá henni í um einn og hálfan tíma, þá fór ég heim en Jónas og pabbi voru áfram því það átti að vera fundur með lækninum.“

Ákvörðun mömmu

„Læknirinn kom seinni partinn og þá sagðist hann halda að veiran væri búin að sigra mömmu, að hann teldi að þeir gætu ekki gert neitt frekar fyrir hana. Hún vildi ekki fara í öndunarvél því þeir töldu að það myndi ekki gera neitt fyrir hana – en það var hennar ákvörðun að vilja ekki reyna það. Hún var alveg með á nótunum og tók því bara að þetta væri búið. Hún var alveg búin að sætta sig við það en einu áhyggjurnar sem hún hafði var að langömmubörnin hennar væru ekki búin að fá gjafirnar sem þau höfðu keypt á Kanarí, að þær kæmust nú örugglega til skila. Í kjölfarið fengu systkini mín að heimsækja hana en auðvitað íklædd þessari sóttvarnamúnderingu.

Á þriðjudagskvöldinu vildi pabbi ekki fara frá mömmu en hann var ekki í neinu standi til vera hjá henni alla nóttina svo við fengum það í gegn að systir mín fengi að vera hjá henni. Klukkan fjögur var pabbi kominn aftur og hann var hjá henni þegar hún fór. Mamma dó í hádeginu á miðvikudeginum 1. apríl, hún missti meðvitund seinni part þriðjudags og fjaraði svo út.“

Miður sín af sorg

„Ég fékk að kveðja mömmu á miðvikudeginum eftir að hún lést, var sú eina sem fékk það, og þegar ég kom heim var ég auðvitað miður mín, ég hafði misst mömmu mína. Jónas var heima, fárveikur inni í herbergi í einangrun og daginn eftir, þegar maður kom aftur til sjálfs síns, þá áttaði ég mig á hvað hann væri orðinn veikur og hefði þurft að fara á spítalann daginn sem mamma deyr. Þá hringdi ég á sjúkrabíl fyrir Jónas og hann var eins og pabbi, það þurfti að bera hann út í bílinn.

Jónas var svo veikur að hann strax var settur í súrefni. Hann var svo orkulaus að hann gat ekki talað í síma svo öll okkar samskipti voru í gegnum hjúkrunarfræðing. Jónas var inni í fimm nætur og tveir dagar voru eins og hjá mömmu – það var bara verið að bíða og sjá. Það var eiginlega eins og ég væri að fara í gegnum sama ferlið með hjá mömmu, sömu samtölin. Ég hélt að hann væri að fara líka.“

Fimmtán metrar

„Þegar þarna var komið var ég líka sett í einangrun og þau vildu senda mig í sýnatöku, ég hafði þegar farið í tvær og í bæði skiptin reynst neikvæð. Sýnatakan reyndist enn og aftur neikvæð. Elsta stelpan mín var þá ein með öll börnin í sóttkví og að hugsa um pabba, ég var í einangrun og Jónas á spítala. Ég fékk svo loksins símtalið um að Jónas væri farinn að braggast og þau væru jafnvel að hugsa um að senda hann heima, hann hafði gengið fimmtán metra með stuðningi en án súrefnis – hann hékk eiginlega á þeim en það þótti afrek að komast þessa fimmtán metra. Þær voru ótrúlega ánægðar hvað honum hefði farið fram. Svo var Jónas sendur heim í þessu ástandi því starfsfólkið á Covid-deildinni var svo hrætt um að það væri væntanleg holskefla vegna páskanna og það var verið að senda þá heim sem var hægt. Þau vissu að heima fengi hann góða þjónustu, við værum vön og réðum við þetta. Hann svaf eiginlega alla þessa viku sem hann var í einangrun, var bara í móki.“

Sex vikur í sóttkví

– Þegar allt er tekið saman, hve lengi voruð þið fjölskyldan í sóttkví?

„Við vorum samtals í sex vikur, þetta reyndi á en það voru allir indælir við okkur, fóru í búð og vildu allt fyrir okkur gera. Bjarni, sá yngsti, fékk meira að segja sendingu heim af leikskólanum.

Það þótti öllum svo undarlegt að allar sýnatökur sem ég fór í reyndust neikvæðar, ég var búin að vera í miklu samneyti við þá sem höfðu veikst án þess að veikjast sjálf, svo ég var send í mótefnamælingu. Hún reyndist jákvæð og ég mældist með mótefni en veit ekkert hvenær ég hef veikst. Ég hafði verið þreytt og slöpp, með smá pirring í hálsi um tíma, en það er engin leið að sjá hvenær ég gæti hafa veikst. Þeir sögðu að mögulega hefði veiran ekki verið nógu sterk í hálsinum í sýnastökunni til að mælast eða ég gæti jafnvel hafa veikst fyrir löngu síðan. Það væri engin leið að vita það en ég treysti því engan veginn að ég geti ekki fengið þetta aftur, veiran er að stökkbreytast og þeir eru líka að læra inn á þetta. Þannig að ég tek enga sénsa.“

Var brugðið fyrst eftir sóttkví

„Mér brá þegar ég fór í fyrsta skipti út í búð eftir að hafa verið lokuð í sóttkví. Ég var með hanska, sprittuð og var að passa mig en það var enginn að virða tveggja metra regluna og fólk teygði sig jafnvel yfir hausinn á manni til að sækja vörur í hillurnar. Svo að sjá í sumar öll þessi fótboltamót, allir að hittast og skemmta sér hver ofan í öðrum. Núna er komin önnur bylgja af því að fólk er ekki að passa sig, það er ekki að gera eins og fyrir það er lagt. Fólk gerir sér engan veginn grein fyrir hve alvarlegt þetta er. Mér finnst það bara sorglegt, það létust tíu manns og fjölmargir veiktust. Það er bið eftir endurhæfingu því fólk hefur skerta starfsgetu eftir að hafa veikst í mars. Jónas minn, sem er heilsuhraustur maður, gat ekki keyrt lengra en upp í Borgarnes þá var hann sprunginn – alveg búinn á því bara við það eitt að keyra bíl. Ég held að fólk ætti að passa sig betur, það margborgar sig.“

Útför mömmu

Eftir allar þær raunir sem fjölskylda Guðnýjar hafði gengið í gegnum og þau loks búin að komast yfir veikindin var komið að því að jarðsetja móður hennar. Því átti eftir að fylgja ýmis vandkvæði sem jók aðeins á sársauka fjölskyldu í sorgarferli.

„Fyrir nokkrum árum siðan höfðu bæði mamma og pabbi verið búin að útbúa áætlun í kirkjunni á Ísafirði um hvernig þeirra óskir um útför þau sæju fyrir sér þegar kallið kæmi. Hún vildi bara vera jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju, í sínum heimabæ þar sem hún hafði alltaf búið. Hún var mjög trúuð hún mamma.

Ég sótti um undanþágu til að vera viðstödd kistulagninguna en fengum það ekki þannig að ég og krakkarnir mínir sátum hérna heima og systir mín streymdi athöfninni á Facebook. Rétt áður en þau mættu í kistulagninguna komu þau skilaboð að kistan mætti ekki vera opin, þannig að restin af fjölskyldunni fékk í raun ekki að kveðja. Séra Skúli [Ólafsson] sá um athöfnina, við þekktumst því hann hafði verið prestur á Ísafirði. Hann gerði þetta ótrúlega vel og á hrós skilið fyrir hve falleg athöfnin var hjá honum.“

Fjölskyldan sár og reið út í Þjóðkirkjuna

„Svo vorum við að reyna að fá að halda jarðarförina á Ísafirði en þá var Covid-ástandið orðið slæmt fyrir vestan og komin tilmæli frá sóttvarnalækni um að vera ekki með samkomur þar sem fleiri en fimm komu saman. Þetta voru tilmæli, ekki lög, en presturinn fyrir vestan vildi ekki taka þá ákvörðun að leyfa tuttugu manns að koma saman í kirkjunni og ráðfærði sig við biskup. Biskup neitaði að verða við þessari bón þótt fjölskyldan vildi virða þessa ósk mömmu og jarðsetja hana frá Ísafjarðarkirkju. Eins og ég segi þá voru þetta aðeins tilmæli en ákvörðun biskups var ekki haggað og því fór athöfnin fram í Neskirkju og séra Skúli jarðsöng. Ég get ekki skilið þessa ákvörðun biskups því þetta var sami hópur og hittist í Neskirkju, þessar tuttugu manneskjum, og ég get ómögulega séð hvaða munur var á því að þessi sami hópur gæti hist í Neskirkju en ekki í Ísafjarðarkirkju – þetta voru tilmæli og engin lög yrðu brotin. Þess má geta að Ísafjarðarkirkja tekur 300 manns í sæti og tuttugu manns hefðu hæglega rúmast inni í henni án þessa að brjóta tveggja metra regluna, þar að auki voru engar aðrar athafnir í kirkjunni á þessum tíma.

Mamma var búin að velja lög og sálma sem organistinn lék og séra Skúli gerði eins vel og hægt var að gera úr aðstæðum, þetta var mjög falleg útför en þarna fannst mér Þjóðkirkjan skella hurðum á okkur aðstandendur þegar við þurftum hvað mest á henni að halda.

Við leigðum bílaleigubíl sem við bárum kistuna í að athöfn lokinni, svo ókum við fjölskyldan öll saman vestur með mömmu þar sem hún var greftruð og þá voru engin vandkvæði að vera öll saman í kirkjugarðinum, þar vorum við meira að segja fleiri en tuttugu því systur hennar voru viðstaddar greftrunina – en af því að þetta var haldið úti var það í lagi.“

Hér eru foreldrar Guðnýjar, Bjarni Líndal Gestsson og Ágústa Ragnhildur Benediktsdóttir, á góðri stund á Kanarí fyrir nokkrum árum síðan. Ágústa lést þann 1. apríl 2020 af völdum COVID-19.

Minningarathöfn í Ísafjarðarkirkju

„Ég var rosalega reið, er ennþá reið, út í Þjóðkirkjuna því mér fannst þetta bara ljótt. Hún á að vera til staðar fyrir fólk á svona tímum. Við ákváðum svo að halda minningarathöfn fyrir vestan og hún var haldin í júní. Þá gátum við meira uppfyllt óskir mömmu en samt ekki alveg. Mamma og pabbi höfðu valið lög eftir Elvis Presley sem voru leikin á panflautu, þessi lög vildu þau láta leika sem forspil fyrir athöfn í kirkjunni. Svona tónlist hefur margoft verið leikin í jarðarförum, líka í Ísafjarðarkirkju áður. Þá mátti ekki spila af disk, organistinn vildi ekki leyfa það og sagði að það ætti að nota tónlistarfólk af svæðinu. Það endaði á því að organistinn lék lög af disknum en við könnuðumst ekki við nema tvö þeirra sem hún spilaði fyrir athöfn. Þarna vorum við að reyna að uppfylla óskir mömmu en aftur var skellt á okkur. Þetta gerði mig ennþá reiðari, því það þekkist alveg að lög séu leikin af diskum við svona athafnir, enda er ég núna búin að segja mig úr Þjóðkirkjunni.“

Heilbrigðisstarfsfólki þakkað

„Seinna þurfti Jónas að fara í vinnuferð til Grænlands og hann fór því að verða sér út um vottorð o.þ.h. Hann notaði tækifærið og þakkaði starfsfólk Covid-deildarinnar fyrir þá þjónustu sem það veitti enda stóðu þau sig vel á erfiðum tímum eins og allir vita. Talið barst í framkvæmd kistulagningar og útfararinnar og þá hváði starfsfólkið, það skildi ekki hvers vegna okkur hafði ekki verið leyft að vera viðstödd kistulagninguna. Þau töluðu um að fólk hefði jafnvel fengið að koma erlendis frá beint í jarðarför og svo í sóttkví en af hverju við fengum ekki að vera viðstödd vitum við ekki.“

Lífið heldur áfram

„Það hafa engir fleiri úr fjölskyldunni veikst eftir þetta, enda kannski enn varkárari eftir þá lífsreynslu sem við höfum gengið í gegnum. Þetta hefur líka orðið til þess að annað fólk okkur tengt, vinir og kunningjar, hafa líka verið mjög passasöm og gætt vel að sér. Það sá að þetta er ekki bara pest. Þessi veira er ekki eins léttvæg og margir halda fram, það fólk gerir sér enga grein fyrir því hvað þetta er rosalegt og gerist hratt. Þótt þú veikist ekki mikið þá geturðu verið lengi að glíma við eftirköstin, hve lengi veit enginn í raun og veru  – eða hvort fólk nái sér að fullu yfirleitt. Vill fólk í alvöru taka áhættuna á því? Ég óttast mjög að verið sé að slaka of mikið á reglunum.

Nú erum við bara að reyna að halda áfram með lífið. Þetta reyndi á og framundan er mikil vinna. Jónas er ekki með fulla starfsgetu og þarf á endurhæfingu að halda. Þetta liggur á sálinni á fjölskyldunni, sjálfsásakanir sækja að fólki og það þarf tíma til að vinna úr sorginni – en lífið heldur áfram.“