Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Codland fær 75 m.kr. í rannsóknarstyrk
Mánudagur 2. febrúar 2015 kl. 07:32

Codland fær 75 m.kr. í rannsóknarstyrk

Codland hlaut á dögunum 4,35 milljónir norskra króna, jafnvirði um 75 milljóna íslenskra króna, í rannsóknarstyrk frá Nordic Innovation. Rannsóknarverkefnið, sem er til 3 ára, hefur það að markmiði að þróa ensím sem ætluð verða sérstaklega til að vinna kollagen peptíð úr kaldsjávarfiskum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenska sjávarklasanum og greint var frá á vef Grindavíkurbæjar.

Undanfarin misseri hefur Codland unnið að tilraunaframleiðslu kollagens úr þorskroði í samstarfi við gelatínframleiðendur á Spáni, en kollagen er lífvirkt efni sem sífellt verður vinsælla í heilsu- og snyrtivörugeiranum. Tilraunframleiðslan og rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið sýna að aðlaga þarf framleiðsluferlið betur að hráefninu og leita leiða til að auka sjálfbærni framleiðslunnar. Í samvinnu við Matís, Barentzyme í Noregi, DTU-Biosustain og Háskólann í Árósum hefst Codland nú handa við slíkt rannsóknar- og þróunarferli en við lok þess er gert ráð fyrir að að reisa kollagenverksmiðju á Íslandi sem unnið getur kollagen peptíð úr roði kaldsjávarfiska á sjálfbærari, hagkvæmari og tæknilega fullkomnari hátt en þekkst hefur hingað til.

Ljóst er að styrkveitingin er mikil lyftistöng fyrir Codland en markmið fyrirtækisins er þróa verðmætar afurðir úr aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu, einkum á þorski. Þá er einnig ljóst að þriggja ára samstarf við jafn öflugar stofnanir og fyrirtæki á borð við Barentzyme, DTU-Biosustain og Háskólann í Árósum opnar Codlandi mikla möguleika til framtíðar. Codland er eitt þeirra fyrirtækja sem orðið hafa til á vettvangi Íslenska sjávarklasans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024