Clint Eastwood í Keflavík
Clint Eastwood er í öllu sínu veldi í göngugötunni við Icelandair Hótelið framan við Bókasafn Reykjanesbæjar. Þar verður hann alla helgina undir verndarvæng Tómasar Knútssonar, herforingja í Bláa hernum.
Blái herinn er með sýningu í göngugötunni á myndum og munum frá tökum á kvikmyndinni Flags of our Fathers, sem m.a. var tekin í Sandvík á Reykjanesi. Clint Eastwood var leikstjóri myndarinnar og eru myndir af leikstjóranum að störfum í Sandvík meðal sýningarmuna.
Herjeppi, sem lék stórt hlutverk í myndinni, er meðal sýningargripa. Blái herinn á jeppann, sem hefur verið gerður upp í upprunalega mynd.
Á meðfylgjandi mynd er Tómas Knútsson með mynd af vini sínum Clint Eastwood. Þeir sem vilja skoða sýninguna er bent á að hún opnar síðdegis og verðu opin alla helgina.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson