Christmas Vacation er algjört eðal meðal
Jón Steinar Sæmundsson er tæknistjóri hjá Vísi hf. í Grindavík. Hann segir að jóladegi sé vel varið heima fyrir í át og aftur át og afslöppun eftir át. „Svo narta ég kannski í einhverja afganga eftir allt þetta erfiði,“ segir hann í svörum við nokkrum léttum jólaspurningum Víkurfrétta.
Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Christmas Vacation er algjört eðal meðal til að koma manni í gírinn.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég reyni að spreða úr mér smá kærleik á fésbókinni til vina og vandamanna. Þar spara ég fólki þá hugarangist að ráða fram úr skriftinni minni.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Ég reyni að setjast alltaf til borðs á slaginu sex á aðfangadag með útvarpsmessuna á fullu blasti.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það eru gjafirnar frá dætrum mínum hverju sinni.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum?
Það að fá að opna einn pakka snemma aðfangadag til að slá á spennuna.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Létt taðreyktur lambahryggur, ættaður úr suður-Þingeyjarsýslu.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Þegar að klukkuskrukkan hringir kl. 18 á aðfangadag.
Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Ég er ekki alveg að sjá mig liggjandi undir pálmatré. Hver veit? Útiloka ekkert.
Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?
Ha? Hvaða leyndarmáli?
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Jólatréstoppurinn trónir á toppi þess lista.
Hvernig verð þú jóladegi?
Honum er vel varið heima fyrir við át og aftur át. Afslöppun eftir át. Svo narta ég kannski í einhverja afganga eftir allt þetta erfiði.