Cate Le Bon í Hljómahöll
Það er sannkallaður hvalreki fyrir tónlistarunnendur á næsta leyti. Cate Le Bon er á leiðinni með hljómsveit sinni og spilar í Hljómahöll þann 9. september nk. Tónleikarnir eru hluti af Reward tónleikaferð hennar í tilefni af útkomu 5. hljómplötu hennar sem ber nafn ferðalagsins. Miðasala er hafin á tix.is og er miðaverði stillt í hóf eða aðeins 4.900 kr.
Cate Le Bon er velsk og ólst upp á afskekktum sveitabæ. Hún byrjaði ferilinn á að syngja á velsku en síðustu 4 plötur hafa verið á ensku. Hún kom fram á sjónarsviðið árið 2007 þegar hún hitaði upp fyrir Gruff Ryhs á fyrsta sólótúr hans um Bretland. Hún hefur verið að vaxa jafnt og þétt sem tónlistarkona og fengið frábæra dóma fyrir útgefnar plötur. Mug Museum og Crab city komu út 2013 og 2016 og þykja hreint frábærar. Með Reward hefur hún hins vegar toppað sjálfa sig að mati margra og hafa dómarnir verið afar lofsamlegir. Þannig fékk hún 10 af 10 í The Quietus, 10 í Music OHM, 9 í Uncut, 9 í Line of best fit, 8,4 í Pitchfork og 8 í The Guardian. Hún þykir frábær á tónleikum og verður að teljast mikill fengur eins og áður sagði að hún komi til Íslands.
Hljómahöll hefur verið að hýsa fleiri og fleiri tónleika upp á síðkastið og er salurinn þar einn besti tónleikasalurinn á Íslandi þegar kemur að minni og meðalstórum viðburðum. Skemmst er að minnast frábærra tónleika Louis Cole fyrr í vetur sem eru með bestu tónleikum seinni ára á Íslandi.
„Cate Le Bon er meistari tengingarinnar á milli tónlistar og tilfinninga því sú tenging er hjartað í öllu sem hún gerir. Reward er toppur Cate Le Bon þegar kemur að þessari tengingu og melódískir hæfileikar hennar njóta sín sem aldrei fyrr. Reward stefnir í að verða nútíma klassík af því platan hefur að geyma lagasmíðar sem endast en það gera afar fáar hljómplötur á hverjum tíma.“ (The Quietus)