Byrjar að kaupa jólagjafir í ágúst
Sigrún Drífa Óttarsdóttir er eiginkona Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra í Suðurnesjabæ.
„Við höldum í ákveðnar hefðir. Ég byrja snemma að undirbúa jólin, byrja að kaupa jólagjafir í ágúst, klára að baka um miðjan nóvember svo setjum við upp jólaskreytingar í vikunni fyrir aðventu. Jólatré er svo skreytt viku fyrir jól. Við fjölskyldan komum saman hjá okkur um miðjan desember, þar sem við höfum svona julefrokost, sem okkur finnst svo skemmtilegt. Ein ömmustelpan mín á afmæli um miðjan desember svo stundum hittist þannig á að julefrokost er í tengslum við afmælið hennar. Ein ríkasta hefðin okkar er svo sú að á Þorláksmessukvöld sjóðum við hangikjöt, ég baka brauð á aðfangadagsmorgun og eiginmaðurinn sér um að sjóða rauðkálið fyrir jólamatinn. Þá er jólailmurinn kominn í hús og sjálf jólahátíðin gengur í garð,“ segir Sigrún Drífa Óttarsdóttir, eiginkona Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra í Suðurnesjabæ.
„Samvera fjölskyldunnar er eitt það besta við jólin, líka hvað allt er hátíðlegt. Við förum alltaf vestur í Ólafsvík fyrir jólin til að hitta tengdamömmu og fjölskyldurnar okkar, förum í kirkjugarðinn þar og setjum logandi kerti á leiði ömmu minnar og afa og tengdapabba. Ég sakna þeirra mikið og finnst jólin mega koma þegar við erum búin að fara í kirkjugarðinn í Ólafsvík.
Þetta verða að vísu svolítið skrítin og óvenjuleg jól. Við munum væntanlega ekki hitta eins marga um hátíðarnar og oftast áður en það vill svo vel til að við fjölskyldan erum ekki nema níu þegar við hittumst svo þetta ætti að sleppa hjá okkur.
Ég er mikið jólabarn. Þegar ég byrjaði að búa hét ég því að vera alltaf tímanleg með allt og bara njóta mín svo á aðventunni. Þegar ég var stelpa var verið að gera allt alla aðventuna og setja svo upp jólaeldhúsgarndínurnar kl. 23.30 á Þorláksmessukvöld og skreyta svo jólatré. Það var ekki alveg fyrir mig. Ég skreyti bara svona temmilega og hef ekki voða mikið jóladót en ég er hrikalegur krummi því allt sem glitrar finnst mér svo fallegt.
Mér finnst fínt að búa hér á Suðurnesjum. Hef sagt að þetta sé svona eins og heima í Ólafsvík en vantar bara fjöllin. Annars hefur okkur verið tekið vel og það er yndislegt fólk hér.
Það er nú allaf gaman þegar er kveikt á jólatrjánum hér í bæ og hvað bæjaryfirvöld skreyta göturnar vel og skemmtilega. Ég er alltaf svo hrifin þegar fólkið byrjar að setja upp jólaseríurnar snemma á húsin hjá sér, því þá birtir svo til úti og tölum ekki um þegar er smá snjór yfir öllu. Mér finnst fólk í Suðurnesjabæ mjög duglegt að skreyta umhverfi sitt með jólaljósum, ég bara elska jólaljósin.
Heima hjá okkur elska allir rúsínukökurnar sem ég baka eftir uppskrift frá mömmu. Svo eru það lakkrístopparnir og brún lagterta sem verður að vera og tilheyrir aðventunni.“
Allir heima hjá Drífu elska rúsínukökur.
Rúsínukökur
2,5 bolli hveiti
2 bollar haframjöl
2 bollar sykur
1 bolli smjörlíki
1 bolli rúsínur
1 tesk natron
0,5 tesk salt
Deigið hnoðað, kökur mótaðar og bakaðar við 250°C