Byrja á „best of“ plötu
Hobbitarnir fagna tíu ára afmæli
Hobbitarnir eru ekki bara litlir skrýtnir gaurar í Hringadróttins sögu heldur eru líka til söngelskir Hobbitar hérna á Suðurnesjum sem sjást ótt og títt á öldurhúsum svæðisins. Þeir Hlynur Þór Valsson og Ólafur Þór Ólafsson stigu fyrst saman á svið fyrir tíu árum sem trúbadoradúettinn Hobbitarnir á Paddy’s í Keflavík og síðan hafa þeir þeir skemmt Suðurnesjamönnum við ótal tilefni. Til að fagna þessum stóráfanga ætla Hobbitarnir og Föruneytið að slá upp sveitaballi af flottari gerðinni í Samkomuhúsinu í Garði laugardaginn 15. nóvember. Þeir munu fá ýmsa gesti á sviðið með sér til að aðstoða með söng og hljóðfæraleik. Að þessu tilefni hitti blaðamaður Víkurfrétta Hobbitana Hlyn og Óla og tók þá tali.
Hvernig kom það til að sveitin var stofnuð?
„Ég hafði verið að spila með hljómsveitum í Sandgerði og var búinn að safna í góða söngmöppu sem var hægt að grípa til þegar fólk kom saman að skemmta sér. Síðan kom tímapunktur þar sem engin af þessum hljómsveitum var í gangi og þá sá ég Hlyn spila á tónleikum með dúettinum 10, ásamt Sigga Guðmunds, sem síðar varð Siggi Hjálmur. Mér datt í hug að við tveir myndum geta myndað ágætis sviðspar og náði að plata Hlyn á æfingu og hér erum við enn 10 árum síðar,“ segir Óli. „Skemmtilegt að það hafi verið dúettinn 10 og við erum hér 10 árum seinna. Þið megið svo giska hvort ég hafi verið 1 eða 0 í þeim dúett,“ segir Hlynur og brosir út í annað. „Við Óli vorum búnir að vera Hobbitarnir í fimm ár þegar okkur datt í hug að halda afmælistónleika og hóuðum í félaga okkar til að spila með okkur þar. Þannig varð Föruneytið til og Óli Ingólfs trommari og Pálmar bassaleikari bættust í hópinn,“ rifjar Hlynur upp. Eins hefur Kristinn Hallur spilað talsvert með bandinu.
Hver var pælingin á bakvið hljómsveitina, átti að herja á ballmarkað?
„Við höfum nú aldrei verið með stóra drauma um meikið heldur höfum við bara gaman af því að spila saman og fólk virðist hafa gaman af því að hlusta á okkur. Það er samt ekkert verra að vinna sér stundum inn eina og eina aukakrónu,“ segir Hlynur. Óli rifjar svo upp fyrsta giggið hjá félögunum en það var haldið í rauðvínsklúbbi hjá vinkonu þeirra í Sandgerði síðla árs 2004. „Síðan þá höfum við spilað fyrir allt frá fjórum til fjögur þúsund en okkar heimavöllur hefur nú lengstum verið sviðið á Paddy's. Vertarnir þar, fyrst Jói og Karen og síðar Ambi, hafa verið okkur hliðhollir.“ Hlynur bætir við að þeir hafi verið heppnir að því leyti að hafa alltaf haft nóg að gera á Suðurnesjum.
Hvenær kemur svo platan?
„Það er nú til eitthvað efni sem við höfum tekið upp bæði bara tveir og svo líka Föruneytið saman. En ekkert að því er samt beint aðgengilegt. Klassart tók lag eftir okkur fjóra upp á sína arma og gaf út á einni plötunni sinni. Útgáfuferillinn mun hefjast á 15 ára afmælinu og við byrjum á „best of“ plötu,“ segir Hlynur en þeir hafa báðir fiktað við lagasmíðar í sínu hvoru lagi enda verið viðloðandi ýmsar hljómsveitir í gegnum tíðina.
Þeir Hlynur og Ólafur hafa glatt margan Suðurnesjamanninn síðustu tíu árin. Nú síðast mættu þeir á Ástvaldarballið í Sandgerði og spiluðu.