Býr í barninu ljóðskáld?
Ljóð unga fólksins, ljóðasamkeppni barna og unglinga á aldrinum 9 til 16 ára stendur nú yfir í bókasöfnum landsins. Skilafrestur ljóða er til 1. desember nk. Bókasafn Reykjanesbæjar tekur við ljóðum skálda og kemur þeim til dómnefndar.
Þöll, samstarfshópur um barna- og unglingamenningu á bókasöfnum, hratt samkeppninni af stað vorið 1998, þá sem ljóða- og smásagnakeppni. Ári síðar var ákveðið að hafa einungis ljóðasamkeppni og hlaut hún þá nafnið Ljóð unga fólksins.
Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna hafa nú tekið við keflinu og er þetta í sjöunda sinn sem keppnin er haldin. Gefin verður út bók með verðlaunaljóðunum ásamt úrvali ljóða úr keppninni eins og gert hefur verið í fyrri keppnum. Að þessu sinni sér samstarfshópur forstöðumanna skóla- og almenningssafna í Kópavogi um val ljóða og útgáfu bókarinnar.
Þátttakendum er skipt niður í tvo aldurshópa, 9-12 ára og 13-16 ára, og getur hver þátttakandi skilað inn mest þremur ljóðum. Verðlaun verða afhent í tengslum við Dag bókarinnar 23. apríl sem er í Viku bókarinnar.
Skilafrestur er til 1. desember 2012. Verðlaunaafhending fer fram í þeim almenningsbókasöfnum eða skólasöfnum sem taka þátt og eru staðsett næst verðlaunahöfum.