Býður á tónleika og þakkar bæjarbúum stuðning í gegnum árin
- Sigurður Sævarsson tónskáld með tónleika í Keflavíkurkirkju
Sigurður Sævarsson, Listamaður Reykjanesbæjar, býður Suðurnesjabúum á tónleika í Keflavíkurkirkju næstkomandi fimmtudag, 10. nóvember klukkan 20:00. Á tónleikunum verða flutt verk eftir Sigurð en hann segir í samtali við Víkurfréttir að tónleikarnir séu þakklætisvottur hans til bæjarbúa og Suðurnesjamanna allra fyrir stuðninginn í gegnum árin. Tónleikarnir standa yfir í tæpa klukkustund. Aðgangur er ókeypis en ef fólk vill láta fé af hendi rakna þá er þeim bent á orgelsjóð Keflavíkurkirkju.
Flytjendur á tónleikunum verða Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Á efnisskrá verða: Stabat Mater (frumflutningur á Íslandi), Nunc dimittis og Requiem (frumflutningur).
Flytjendur á tónleikunum verða Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Á efnisskrá verða: Stabat Mater (frumflutningur á Íslandi), Nunc dimittis og Requiem (frumflutningur).
Sigurður er tónskáld og starfar sem skólastjóri Nýja tónlistarskólans í Reykjavík. Sá skóli var stofnaður af Ragnari Björnssyni, sem var fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík. Vinnudagurinn hjá Sigurði hefst við píanóið þar sem hann sinnir tónsmíðum í morgunsárið. síðan tekur skólastýringin við fram undir kvöldmat. Hann segist virkastur við tónsmíðar að morgni en alveg vonlaus að kvöldi.
„Hún er nokkuð lífseig myndin í hugum fólks af tötrum klæddum manni, búandi á óupphituðum hanabjálka og fórnað hefur öllu fyrir listsköpun sína. Þetta er kannski ekki alveg þannig en það er vissulega barningur og basl að reyna að lifa af þessu. Ég veit ekki um mörg tónskáld sem hafa lífsviðurværi af þessu hér á landi. Þess vegna eru flestir með einhverja aðra vinnu meðfram tónsmíðunum, oftast tónlistarkennslu,“ sagði Sigurður í viðtali við Víkurfréttir árið 2010.
Sigurður segist vinna hægt þegar kemur að því að semja tónlist en auðvitað sé líka nauðsynlegt að hafa raunhæfa tímapressu. Þegar hann semur tónverk sé hann oftast að handleika texta, vinnur með textann og hrynjandina í honum og málar leikmynd með tónunum. Sigurður segist fyrst vinna allt á pappír áður en það sé fært inn í tölvu. Tónsmíðarnar taki mikinn tíma. Hann geti jafnvel verið vikur að vinna með eina hendingu og viðurkennir fúslega að þetta sé bara fullkomnunarárátta og hlær. „Ég hef aldrei klárað verk með því hugarfari að þetta dugi. Það er ekki í boði. Athyglin skiptir mig engu en verkið verður að ganga upp og þá er ég ánægður.“ Sigurður segir sköpunarþrá drífa sig áfram, að fá að sinna ástríðu og vinna með frábæru tónlistarfólki. Það séu forréttindi.
Schola cantorum, sem er kammerkór Hallgrímskirkju, er helsta viðfangsefni Sigurðar. Hann semur helst fyrir þann kór, auk þess að syngja þar einnig sjálfur. Óratorían Hallgrímspassía var samin fyrir kórinn og var það upphafið af þessu farsæla samstarfi.
Um listamann Reykjanesbæjar
Sigurður Sævarsson, tónskáld, var valinn Listamaður Reykjanesbæjar árið 2014. Sigurður hóf tónlistarnám ungur að aldri, og síðar söngnám, í Tónlistarskólanum í Keflavík. Síðan lá leiðin í Nýja tónlistarskólann í Reykjavík þar sem kennarar hans voru Sigurður Demetz Franzson og Alina Dubik. Sigurður nam bæði söng og tónsmíðar við Boston háskóla og lauk þaðan meistaragráðu í báðum greinum 1997.
Sigurður hefur samið fjölda verka, bæði stór og smá. Aðal áhersla hans hefur verið á óperur og kórverk. Má þar nefna óperuna Z-ástarsaga, sem frumflutt var á óperuhátíð Norðuróps 2001 í Reykjanesbæ, óratoríuna Hallgrímspassíu sem frumflutt var í Hallgrímskirkju 2007 og aftur í Ytri-Njarðvíkurkirkju og í Hallgrímskirkju á Kirkjulistahátíð 2010. Var hún í kjölfarið hljóðrituð og gefin út sama ár. Diskurinn var tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokknum Sígild og Samtímatónlist. Önnur ópera Sigurðar, Hel, samin við sögu Sigurðar Nordal var flutt í Íslensku Óperunni í samvinnu við Listahátíð 2009. Ári seinna var Sigurður staðartónskáld á Sumartónleikum í Skálholti og samdi af því tilefni Missa Pacis fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Verkið var hljóðritað sama ár og gefið út 2011. Þá má nefna Kvæði, verk fyrir einsöngvara og strengjasveit sem frumflutt var á Myrkum Músíkdögum 2011. Sama ár var kórverk hans, Stabat Mater, frumflutt á Ítalíu. Í desember 2012 var verk Sigurðar, Jólaóratoría, frumflutt í Hallgrímskirkju af kór, einsöngvurum og hljómsveit. O crux, verk fyrir blandaðan kór, var frumflutt haustið 2014, bæði hér heima og á Norðurlöndum. Annað verk, Nunc dimittis, var frumflutt á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju 2015 og núna komið út á disk, ásamt fleiri verkum, sem sænska útgáfan Bis gefur út. Diskurinn hefur fengið gríðarlega góða dóma erlendis. Í janúar á næsta ári kemur út myndskreytt bók um Hlina kóngsson. Með bókinni fylgir geisladiskur þar sögumaður segir söguna undir tónlist sem Sigurður hefur samið við ævintýrið.
Verk Sigurðar hafa verið flutt víða um heima, bæði í Evrópu og í Norður- og Suður-Ameríku.
Schola cantorum, sem er kammerkór Hallgrímskirkju, er helsta viðfangsefni Sigurðar. Hér er hann ásamt kórnum.