Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Búum til væntingar“
Pétur Hafsteinn Pálsson.
Sunnudagur 15. júní 2014 kl. 10:00

„Búum til væntingar“

Vísir hf og sjávarútvegurinn standa á tímamótum.

Fyrirtækið Vísir verður 50 ára á næsta ári. Forsagan hófst á Þingeyri fyrir 85 árum. „Tveimur árum áður en pabbi fæddist keypti afi, Páll Jónsson, bátinn Fjölni, flutti til Þingeyrar og hóf útgerð. Í miðri seinni heimsstyrjöld, árið 1943, keypti hann ásamt Kaupfélagi Þingeyringa á Akureyri bát sem fékk nafnið Hilmir. Hilmir fórst, ásamt áhöfn, í sínu fyrsta verkefni í nóvember það ár. Þá sat amma eftir, 35 ára útgerðarkona, með fjögur börn,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, eigandi og forstjóri Vísis.

Síðustu mannfórnirnar í seinni heimsstyrjöldinni
Ekkjan og amma Péturs, Jóhanna Daðey Gísladóttir, átti Fjölni áfram og hélt áfram að gera út og sigla með fisk til Bretlands í stríðinu hluta úr árinu. Í mars 1945 varð slys í dimmviðri og Fjölnir var sigldur niður og með fórust fimm menn. „Þær mannfórnir eru taldar þær síðustu í seinni heimsstyrjöldinni. Ekkja með fjögur börn og búin að tapa báðum bátum sínum. Þegar pabbi, Páll Hreinn Pálsson, er að verða tvítugur stofnar hann ásamt nokkrum öðrum félag á Þingeyri til að kaupa bát sem einnig fékk nafnið Fjölnir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitt af skipum Vísis.

Fyrstu skref föðurins í útgerð
Pétur segir að ekki hafi tekist á þeim tíma að tengja saman veiðar og vinnslu og því hafi þetta fyrirtæki dáið drottni sínum. „En þetta voru fyrstu skref föður míns í útgerð. Hann fór til Reykjavíkur í Stýrimannaskólann og kynntist þar mömmu og fór aldrei vestur eftir það. Þau fluttu svo til Keflavíkur og þar erum við fædd elstu 5 systkinin.“ Þar keypti faðir hans sinn fyrsta bát, Farsæl, sem sökk 1964, en mannbjörg varð. Fyrir það tryggingafé kaupir hann fyrirtæki í Grindavík sem hét Vísir. „Upphafið er þessi saga hér að framan en síðustu 50 árum lýsir pabbi rekstri þannig að við keyptum bát, fórum að vinna fisk og höfum gert það síðan. Eftir þetta höfum við misst einn mann, milli skips og bryggju, sem er einum manni of mikið en að öðru leyti verið lánsöm. Pabbi hafði alltaf trú á því að útgerð og fiskvinnsla ætti að vera á einni hendi. Bjuggum í bragganum fyrstu árin með Færeyingum og Húnvetningum í Grindavík og tókum fyrstu æskuskrefin hér. Höfum verið í Sævíkinni [hús Vísis] síðan.“



Fimm skip og 250 manns
Fyrirtækið er með 250 manns í vinnu og rekur fimm skip, jafngömul fyrirtækinu, sem skila inn 17 þúsund tonnum árlega. „Ávinningurinn af nýjum línuskipum hefur ekki verið það mikill, nema kannski vinnuumhverfi fyrir áhöfn, að það hafi borgað sig að skipta. Við komumst  ekki upp með það mikið lengur. Draumurinn er að geta skoðað nýsmíði á 50 ára afmælinu en ég er ekki viss um að okkur takist það,“ segir Pétur.


Er bryggjustrákur og þorpari
Pétur segist aldrei hafa átt minnstu möguleika á að gera nokkuð annað en það sem hann hefur gert. „Maður ólst upp í fjörunni innan um fiskinn. Eðli mitt er bryggjustrákur og þorpari og 10-12 ára fór ég að moka salt. Og þegar við vorum orðnir nógu stórir til að keyra hjólbörurnar gerðum við það.“ Á þeim tíma var ekki óalgengt að 12-14 ára strákar væru farnir í fulla vinnu og skólaganga miðaðist við vertíðir. „Þarna voru fyrirmyndirnar. Við vorum komnir með ráðherralaun á loðnu 17-18 ára,“ segir Pétur og bætir við að að upplagi sé hann blanda af vestfirskri hörku í föðurætt og hins vegar hafi hann fengið sveitarómantíkina og mýktina úr móðurættinni. Hann telur sig þó meira í móðurættina. Pétur tók við stjórnartaumunum árið 2000 en segir að einnig sé hægt að halda því fram að hann sé ekki enn búinn að taka við. „Pabbi er enn á lífi og ennþá með það nef sem menn þurfa og skýrar skoðanir. Sjálfur hef ég unnið öll störf á sjó og í landi. Þú ferð einu sinni inn í þetta og færð salt í blóðið og þá er ekki aftur snúið. Það segja allir krakkar sem koma, því þetta er í senn spennandi, lifandi og ögrandi grein. Jafn skemmtileg og hún getur verið ömurleg á köflum.“

Húsnæði Vísis í Grindavík.

Erfiðar en nauðsynlegar breytingar
Skemmtilegast við starf sitt segir Pétur vera uppbygginguna. „Ég held ég sé mikill framkvæmdamaður en samt langhlaupari. Ég hef gaman af lífinu á bryggjunni og einnig að framkvæma líka. Þoli illa kyrrstöðu, þarf að líka betur við hana,“ segir Pétur brosandi. Mikið hefur gengið á í rekstri Vísis, t.d. var farið í útrás til Kanada sem tók vel á en er að heppnast. Einnig var fyrirtækið með vinnslu í Þýskalandi og stofnaði sölufyrirtæki í Grikklandi. „Og nauðsynlega breytingin sem við stöndum í núna tekur verulega á. Hún skiptist annars vegar í það að skilja vel við og vinna með fólkinu þar sem mestar breytingar verða hjá, þannig að það verði eitthvað að gera hjá þeim. Hitt er skemmtilegt, að byggja upp þessa möguleika hérna í Grindavík. Sameina fjórar vinnslur í tvær og þær geta unnið meira en á þessum fjórum stöðum.“ Nálægðin við flugvöllinn sé mikilvæg sem og betri staða til að nýta aflaheimildirnar. „Við vorum alltaf með sérhæfingu í hverju húsi. Það virkaði vel um tíma en núna vill fólk fljóta afgreiðslu, mikinn sveigjanleika og svo er tímabilamunur á hversu mikið er að gera.“ Afkoman hafi stöðugt lækkað vegna þess að full vinnsla hefði verið á einum stað en ekkert að gera á öðrum. „Þess vegna urðum við að fara í þessa umbreytingu. Allt nýtist betur. Niðurstaðan er jafn spennandi fyrir Grindavík og hún er erfið  fyrir sveitarfélögin úti á landi. Áskorun okkar er að skilja eins vel við og við getum,“ segir Pétur.  

Ábyrgðin er líka samfélagsins
Pétur segir sjávarútveginn standa frammi fyrir þremur stórum áskorunum: Að fá að hagræða og nýta tæknina sem best, bæta markaðsstarf og efla nýsköpun. „Þetta tengist allt saman og er háð hvert öðru. Öflug fyrirtæki sem hafa getu til hagkvæms reksturs allt árið eru komin með grunninn til að byggja markaðsstarfsemina. Það þarf svo hægt sé að auka nýsköpunina því hún felst að miklum hluta í markaðssetningu.“ Pétur bætir við að þetta verði að gerast til þess að geta skapað yngri kynslóðum ný störf, betur launuð. „Markmiðið er að fækka illa borguðu leiðinlegu störfunum og skapa ný betur launuð skemmtileg störf. Aðgerðir okkar í dag eru liður í að takast á við þessar þrjár áskoranir. Ábyrgð samfélagsins í heild skiptir máli þar, ekki bara okkar.“



Öll menntun nýtist í sjávarútvegi
Pétur segir unga fólkið í dag koma með öðruvísi menntun og reynslu inn í fyrirtækin en mín kynslóð gerði sem gagnast vel til að mæta breyttum kröfum frá markaði og umhverfinu öllu. „Tölvugúrú, markaðsfræðingur, hönnuður og vélfræðingur. Öll menntun kemur að góðum notum í sjávarútvegi. Skil á milli atvinnugreina eru alltaf að minnka. Hvenær verðum við líftæknifyrirtæki? Hvenær erum við flutningafyrirtæki? Fiskeldi, er það landbúnaður eða sjávarútvegur?“ Búið sé að hólfa atvinnugreinar of mikið niður, í hugsun, gjörðum og í skólakerfinu. Að mati Péturs mun slíkt þurrkast út hjá nýrri kynslóð. „Ef við hættum að tala um aðskildar greinar mun okkur takast betur að skilja hvert annað. Sjáum bara hvernig sjávarútvegur hefur þróast. Grindavík er ótrúlegur staður að þessu leyti. Húsavík er svipuð. Það þarf að búa til fleiri svona svæði á landinu, kjarna, og svo passa vel að hafa samgöngur góðar á milli staða – það er lykilatriði. Búum til væntingar og látum þær verða að veruleika!“ segir Pétur bjartsýnn að lokum.

VF/Olga Björt