Busaönnin og útskriftarönnin skemmtilegastar
Dúx FS á leið í förðunarskóla og tekur svo stöðuna.
Sara Lind Ingvarsdóttir var dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn 2014. Stærstur hluti stúdenta í þessum hópi var að ljúka stúdentsprófi á þremur og hálfu ári og var Sara Lind Ingvarsdóttir ein þeirra.
„Ég hef engin sérstök framtíðaráform núna eftir nám en ætla að vinna á næstunni. Svo fer ég í förðunarskóla í mars. Það er líka gott að hvíla sig aðeins eftir námið og sjá til með hvað ég geri í haust,“ segir Sara Lind. Að hennar mati er Fjölbrautaskóli Suðurnesja fínn skóli en það mætti laga námsleiðirnar, sem hún segir þó að standi til að gera. Aðspurð segir hún Gulla stærðfræðikennara vera í uppáhaldi. „Hann hefur svo mikinn áhuga á því sem hann kennir.“
Félagslífið skiptir miklu máli
Sara Lind segir að það sem prýði góðan framhaldsskóla sé félagslífið. „Þegar krakkar velja sér framhaldsskóla þá held ég að félagslífið skipti miklu máli. Auðvitað skiptir svo líka máli kennslan og námið.“ Minnistæðir tímar úr náminu segir hún vera busaönnina og útskriftarönnina, þær hafi verið langskemmtilegastar. „Það er allt nýtt og skemmtilegt á busaönninni og þá kynnist maður öllum. Svo er það félagslífið og allt það. Ég var þokkalega virk í því sjálf, mætti a.m.k. á stærstu viburðina.“
Líkamsrækt, ferðalög og samvera með vinum
Helstu áhugamál Söru Lindar utan náms eru líkamsrækt og ferðalög, vera með vinunum og slíkt. Þegar viðtalið var tekið var hún stödd í útskriftarferð í Marokkó með 43 skólafélögum. „Það er búið að vera mjög gaman og áhugavert að kynnast annarri menningu.“ Spurð um styrkleika sem námsmaður segist Sara Lind bara vakna þegar hún á að vakna. „Er haldin sjálfsaga og námið liggur auðveldlega fyrir mér. Ég mæti alltaf í tíma og læri það sem ég á að læra.“