Busadagur með breyttu sniði
Í síðustu viku voru busar innvígðir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Að þessu sinni var vígslan með nokkuð breyttu sniði miðað við undanfarin ár.
Á heimasíðu Fjölbrautaskólans segir frá því að strax um morguninn þurftu busagreyin fylgja margvíslegum reglum sem eldri nemendur höfðu sett í tilefni dagsins, líkt og fyrri ár. Þá voru nýnemarnir vel merktir svo ekki færi á milli mála hverjir þar væru á ferðinni.
Hefð er fyrir því að ganga í skrúðgöngu á vígsludaginn. Að þessu sinni var gangan í styttra lagi því busarnir gengu út í Reykjaneshöllina og kíktu í leiðinni á nýreistan Eiffel-turn við höllina. Þar var búið að koma upp hoppukastala og fleiri leiktækjum þar sem að busarnir léku sér.
Eftir fjöruga dagskrá á Reykjaneshöllinni var haldið aftur í skólann þar sem hljómsveitin Kaleo lék nokkur vel valin lög á sal við góðar viðtökur. Að lokum var svo hinum nývígðu nemendum boðið upp á pizzu og gos. Ekki var annað að sjá en að fólk skemmti sér vel þó að vígslan væri þurrari en undanfarin ár. Um kvöldið var svo hið hefðbundna busaball.
Meðfylgjandi myndir tók Axel Gísli Sigurbjörnsson. Myndasafn frá deginum má sjá hér.