Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Busadagur hjá Íþróttaakademíunni
Föstudagur 25. ágúst 2006 kl. 11:03

Busadagur hjá Íþróttaakademíunni

Það er hefð í skólum landsins að bjóða nýja nemendur velkomna með því að láta þá ganga þrautagöngu, þó mismikla eftir skólum. Nú er að hefjast annað árið hjá Íþróttaakademíunni og því var busað í fyrsta sinn í gær, því auðvitað þarf eldri nema til að pína þá yngri. Kringum þrjátíu nýnemar voru mættir í skólann þennan dag og einungis voru fimm fjarverandi. Fyrst voru nýnemarnir látnir hlaupa hring um bæinn þar sem meðal annars var komið við í Samkaup, á hringtorgi á Hafnargötunni og á knattspyrnuvellinum á Sunnubraut. Á þessum stöðum voru þau látin leika ýmsa leiki sem virtust allir ganga út á það að þreyta mannskapinn sem mest.

 

Þegar í Akademíuna var aftur komið hélt þrekraunin áfram í íþróttasalnum en þar voru nýnemarnir látnir keppa í hinum ýmsu kapphlaupum og leikjum þar sem verðlaunin voru í mesta lagi hálfrar mínútu vatnspása. Ef einhverjir voru við það að gefast upp hvöttu eldri nemar þau óspart áfram. Eftir lætin í íþróttasalnum var nýnemum gert að kæla sig niður með því að ganga að slökkvistöðinni. Þar voru þau fönguð í kaðal og fengu þau ískalda sturtu úr brunaslöngu slökkvuliðsins. Eftir þessa vígsluathöfn var haldið aftur að skólanum þar sem allir nemendur gæddu sér á pylsum í sátt og samlyndi.

 

Ljósmyndari Víkurfrétta elti hersinguna um bæinn og tók myndir og afraksturinn má sjá í Ljósmyndasafninu.

 

Vf-mynd / Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024