Búinn að létta sig um 52 kíló - Sveiflan týnd
Kylfingurinn Davíð Viðarsson úr GS tók sig til seint á síðasta ári og ákvað að breyta algjörlega mataræði sínu með það að markmiði að létta sig. Árangurinn hefur verið hreint út sagt frábær því á tíu mánuðum hefur Davíð létt sig um 52 kíló og stefnir á það létta sig enn meira. Davíð var mest kominn í um 150 kíló og segir að botninum hafi verið náð þegar hann átti orðið erfitt með að ganga 18 holu golfhring.
„Ég var orðinn allt of þungur og náði botninum þegar ég átti orðið erfitt með að ganga heilan hring. Ég hef reynt að grenna mig í mörg ár og alltaf verið í átaki. Nú er ég hins vegar hættur í átaki og er búinn að umbylta matarræðinu hjá mér. Ég hef aðeins verið að hlaupa líka en það er matarræðið sem er lykilinn að þessu,“ segir Davíð sem er ekki hættur þó að 52 kíló sé fokinn á braut.
„Ég get alveg létt mig um 18 kíló í viðbót. Ég er um 100 kíló í dag þannig að það er alveg nóg eftir til að tálga af. Ég stefni að því að vera kominn niður í kjörþyngd snemma á næsta ári.“
Vanur að slá í kringum bumbuna
Davíð er fær kylfingur og var með 3,7 í forgjöf áður en hann hóf að létta sig. Hann hefur þó orðið fyrir barðinu á þyngdartapinu á golfvellinum því golfsveiflan er týnd og forgjöfin hefur verið á uppleið í sumar.
„Sveiflan er alveg týnd og hreinlega í rugli. Það er eitthvað horfið í sveifluferlinum. Líklega er ástæðan sú að ég var orðinn vanur að sveifla í kringum bumbuna en nú þegar hún er farinn þá þarf ég líklega að finna réttu sveifluna upp á nýtt. Ég hitti boltann ágætlega en það er eitthvað sem vantar. Ég ætla að vinna vel í sveiflunni í vetur og koma sterkur inn í næsta sumar,“ segir Davíð sem sér þó alls ekki eftir að hafa létt sig þó það hafi komið niður á aðaláhugamálinu.
„Það er engin eftirsjá þó golfið hjá mér sé ekki gott. Ég er búinn að hækka forgjöfina mína svolítið í sumar en það er alveg þess virði. Almenn líðan er mun betri og ég get gert miklu meira. Ég ætla að reyna að finna sveifluna aftur í vetur og ná fyrri getu á golfvellinum.“
Frétt af Kylfingur.is
Myndir/Jón Júlíus Karlsson: Davíð léttur á fæti á efri myndinni en sú neðri var tekin í fyrra þegar Davíð var hvað þyngstur.