Búin með 10 metra í maraþonhlaupi
Forseti Íslands afhenti á dögunum Íslensku menntaverðlaunin við fjölmenna athöfn í Sjálandsskóla í Garðabæ. Í flokknum Ungt fólk sem við upphaf kennsluferils síns hefur sýnt hæfileika hlaut verðlaunin Karólína Einarsdóttir, myndlistarkennari í Akurskóla í Reykjanesbæ. „Hún er hugmyndaríkur frumkvöðull í kennslu og hefur verið í forsvari fyrir þróunarverkefni á sviði útikennslu,“ segir m.a. um Karólínu sem er þessa stundina í mastersnámi í listmenntun, listssögu og verkmenntun samhliða kennslunni í Akurskóla.
„Það var nú þannig að þegar ég var stelpa þá var ég heilluð af náttúrunni og dýrum og þess háttar. Einnig hafði ég mjög gaman af því að teikna og mála. Svo þegar ég var unglingur þá ákvað ég að eltast ekki við þann draum að verða dýralæknir heldur langaði mig að prófa hitt og þetta og vann á ýmsum stöðum,“ segir Karólína í samtali við Víkurfréttir.
Foreldrarnir bæði kennarar
Þegar Karólína varð ófrísk þá fannst henni tilvalið að fara að læra að verða myndlistarkennari en hún hafði þá hugsað sér að það yrði gaman að vinna við það sem hún hefði svo gaman af. „Ég ólst upp á heimili þar sem báðir foreldrar mínir eru kennarar og í rauninni var það aldrei neinn sérstakur draumur að verða kennari, sérstaklega þar sem foreldrar mínir voru kennarar,“ segir Karólína og hlær. „Það var frekar að mig langaði að vinna við myndlistina. En þegar ég fer svo að vinna með börnum á grunnskólastigi þá finn ég bara hvað þetta er gefandi og skemmtilegt og þetta heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum. Það var bara þannig að maður mætti oft í vinnuna brosandi út að eyrum, en það er alls ekki svo algengt hjá mörgum,“ segir Karólína en auðvitað komi krefjandi dagar og oft sé starfið erfitt, þó sé enginn dagur eins sem hún telur jákvætt.
Karólína útskrifaðist sem myndlistarkennari árið 2007 en áður hafði hún verið forfallakennari í Akurskóla frá árinu 2005. Þar áður hafði hún verið stuðningsfulltrúi í Sandgerðisskóla. Karólína er að vissu leyti sammála því að hún hafi farið í seinna fallinu í kennsluna. „Ég byrja að læra þetta í fjarnámi árið 2001 eða fyrir 10 árum. Ég er búin að taka þetta rólega og ala strákana mína samhliða náminu,“ en hún og maðurinn hennar eiga þrjá stráka.
Hélt að einhver væri að stríða mér
Hvaða þýðingu hafa þessi verðlaun fyrir þig?
„Ég get alveg sagt þér það að fyrst hélt ég að einhver samkennara minna væri að hringja í mig og stríða mér. En þegar ég áttaði mig á því að sú var ekki raunin þá varð ég bara fyrst og fremst mjög hissa. Ég var alveg hreint gáttuð. Mér finnst þetta í raun eins og ég sé að fara að hlaupa maraþon og ég bara búin að hlaupa 10 metra. Samt er einhver búinn að taka mig afsíðis og klappa mér á bakið. Þannig að mér fannst þetta skrítið. Og við hliðina á þessu fólki sem var að hljóta þarna verðlaun þá fannst mér ég ekki alveg eiga þetta skilið,“ en þó viðurkennir hún að hugsanlega hafi hún verið örlítið feimin og kannski hógvær.
En hvað er það í þínu starfi sem aðrir eru greinilega að meta?
„Tilnefningin ein og sér er bara alveg frábær,“ segir Karólína en hún segir erfitt fyrir hana sjálfa að leggja mat á störf sín. Í umsögn um hana frá samkennurum hennar er þó farið fögrum orðum um Karólínu. Hún er sögð hugmyndaríkur frumkvöðull í kennslu sem hefur verið í forsvari fyrir þróunarverkefni á sviði útikennslu í Reykjanesbæ. Hún sé verðugur fulltrúi ungra kennara sem leggja mikla alúð, fagmennsku og metnað í störf sín, nemendum, samstarfsmönnun og nærsamfélagi sínu til heilla.
Hugmyndin fæddist á Reykjanesbrautinni
Karólína er rétt að verða 34 ára og segir það hafa veitt sér gríðarlega mikið að vera í mastersnámi samhliða kennslunni. Hún byrjaði þar haustið 2008 en þá fékk hún margar hugmyndir ásamt vinkonu sinni Önnu Soffíu Wahlström sem var með henni í náminu en þær stöllur keyrðu Reykjanesbrautina til þess að sækja tíma. Þar fæddust einmitt ýmsar hugmyndir sem og í kringum námið.
„Ég held að nemendur séu stoltir af þessu verkefni okkar. Skólabragurinn er þannig að maður reynir að fá nemendur til að taka sem mestan þátt í kennslunni. Við fengum þessa hugmynd árið 2008 um að byrja með útikennslu við Narfakotsseylu við Víkingaheima í Innri-Njarðvík. Við vildum þróa þessar hugmyndir í samstarfi við nemendur og hafa þetta eins lýðræðislegt og hægt væri. Í dag er staðan sú að aðstaðan er risin og þarna á að fara fram kennsla sem tengist mikið sjósókn Suðurnesjamanna. Líka nágrönnum okkar í Víkingaheimum og mörgu því sem snýr að lífinu á svæðinu.“ Karólína segir verkefnið hafa gengið vonum framar og er hún virkilega sátt við náttúruna. Við vonum svo sannarlega að þetta svæði verði nýtt sem best, ekki bara af nemendum Akurskóla og á Holti og Akri. Líka að þetta nýtist bæjarbúum og öðrum skólum í Reykjanesbæ. Við vonum að þetta verði öðrum innblástur.
„Panta mér bara pítsu“
„Það að fara með nemendur út og leyfa þeim að finna fyrir náttúrunni skiptir bara mjög miklu máli. Tenging barna við náttúruna er líka orðin mun minni en hún var áður fyrr. Það er orðið töluvert áhyggjuefni, bæði bara fyrir börnin sjálf og svo upp í það að vera áhyggjuefni fyrir framtíð okkar. Ég fléttaði það inn í kennsluna hjá mér að listamenn og aðrir myndu sækja sér mikið til náttúrunnar. Einhver nemandi minn sem er í 4. bekk var á öðru máli og sagðist sko ekkert þurfa á náttúrunni að halda, hann myndi nú bara panta sér pítsu,“ segir Karólína og hlær. „Við fórum svo að ræða það hvað væri nú eiginlega í pítsum. Hvaðan koma umbúðirnar og botninn, og kjötið og það sem er ofan á pítsunni? Þá fór þetta allt að skýrast fyrir krökkunum.“
Annars er Karólína á því að kennarar séu ekki eylönd. Þetta sé mikil viðurkenning fyrir skólann og þetta sé alger liðsvinna. „Þetta jákvæða virðist líka alltaf vinna og komast upp á yfirborðið. Maður þarf svo bara að velja og hafna hvort maður horfi svo á jákvæðu eða björtu hliðarnar,“ sagði Karólína að lokum.