Buðu 120 skjólstæðingum Velferðarsjóðs í veisluhlaðborð
Eins og áður hefur verið greint frá þá stóðu þær Helga Jónsdóttir, Gísla Vigfúsdóttir og Anna Jónsdóttir fyrir kaffihlaðborði á Glóðinni í Keflavík í desember þar sem ágóðinn rann til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Söfnunarkassi var á staðnum og var fólk beðið að greiða að lágmarki 200 kr. á mann fyrir kaffhlaðborðið. Sú söfnun skilaði um 622 þúsund krónum í söfnun Velferðarsjóðs og voru fjármunirnir afhentir fyrir jól.
Það hefur hins vegar ekki farið eins hátt að Anna Jónsdóttir, ein þeirra sem kom að kaffihlaðborðinu, stóð fyrir stóru og miklu jólahlaðborði fyrir jólin þar sem mættu um 120 manns úr hópi þeirra sem minna mega sín á Suðurnesjum. Það voru m.a. prestarnir á Suðurnesjum sem buðu fólki til veislunnar, fólki sem segja má að séu skjólstæðingar Velferðarsjóðs Suðurnesja. Fjölmargir lögðu veislunni til hráefni og hjálp á ýmsan máta. Þá lagði ónefndur einstaklingur til fjármuni þannig að það mætti leysa alla gesti úr með jólagjöfum. Þá gaf Pálmi Guðmundsson, sonur Önnu Jónsdóttur, fjölskylum þar sem eru stálpuð börn fjölskyldupakka með flugeldum, en Pálmi er einni þeira sem stóðu að flugeldasölu Gæðaflugelda í Reykjanesbæ.
Anna Jónsdóttir, sem skipulagði veisluna vildi þakka öllum þeim sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd, lögðu til húsnæði, hráefni eða annað, fyrir stuðning við verkefnið.
Anna Jónsdóttir, sem skipulagði veisluna vildi þakka öllum þeim sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd, lögðu til húsnæði, hráefni eða annað, fyrir stuðning við verkefnið.
Mynd: Frá kaffihlaðborðinu á Glóðinni. Þar var síðan haldið 120 manna jólahlaðborð fyrir skjólstæðinga Velferðarsjóðs Suðurnesja. VF-mynd: Ellert Grétarsson