Bubbi og Hera í Stapa
Í kvöld verða haldnir tónleikar með Bubba og Heru í Stapanum, en þau hafa uppá síðkastið ferðast um landið og spilað saman á tónleikum. Hera Hjartardóttir býr á Nýja Sjálandi og þó hún sé innan við tvítugt hefur hún vakið athygli fyrir lög sín og texta. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Bubbi hlakka til að koma á Suðurnesin: „Mér finnst alltaf voðalega gott að koma á Suðurnesin, en það hefur samt verið erfitt að bjóða fólki upp á bestu hugsanlegu aðstæður á tónleikum þannig að fólk geti virkilega notið þess að hlusta á tónleikana. Við ætlum að bjóða fólki upp á gæði og þægilega stemningu í Stapanum.“ Bubbi segir að tónleikaferðin með Heru hafi gengið mjög vel: „Það hefur verið frábært að vinna með Heru og ég tek ekkert stórt upp í mig með því að lofa einni af bestu tónlistarskemmtun ársins. Hera semur sín lög og sína texta og er algjörlega sér á báti ef miðað er við íslenskar stelpur. Hún er mjög öflugur „talent“ og það er frábært að vinna með henni,“ segir Bubbi að lokum.
Tónleikarnir í Stapa hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 1.500 krónur.
Tónleikarnir í Stapa hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 1.500 krónur.