Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Búa ennþá í sama húsinu, 40 árum síðar
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 09:18

Búa ennþá í sama húsinu, 40 árum síðar

Hjónin Adólf Sigurgeirsson og Anna Marteinsdóttir hafa búið í Grindavík undanfarin 40 ár. Þau fluttu frá Vestmannaeyjum þegar eldgosið í Heimaey hófst. Líkt og margir Eyjamenn þá urðu þau að flýja gosið upp á land. Adólf og Anna fluttust til Grindavíkur í mars 1973 og hafa verið þar síðan. Þeim var úthlutað húsi að Suðurvör 2 þar sem þau hafa unað hag sínum vel og búa þar enn.

„Við fluttum í mars 1973 - daginn fyrir bolludaginn,“ segir Adólf sem var rúmlega fertugur þegar hann flutti frá Eyjum. „Ég hafði hug á því að flytja frá Eyjum áður en gosið hófst því ég var með barn sem þurfti á sérkennslu að halda og það var ekki í boði í Eyjum. Þegar gosið hófst þá ákváðum við að flytja til Grindavíkur og höfum verið þar síðan.“

Adólf starfaði í vélsmiðju í Vestmannaeyjum og fékk strax atvinnu eftir komuna til Grindavíkur. „Þegar ég kom til Grindavíkur þá var ákaflega vel tekið á móti mér. Það var sagt við mig að járnsmiður færi ekki aftur úr bænum og okkur fjölskyldunni var útveguð íbúð til skamms tíma áður en ég flutti í Eyjabyggðina. Ég flyt inn í húsið mitt í Eyjabyggðinni haustið 1973 og hef verið þar síðan,“ segir Adólf. Áður en hann flutti til Grindavíkur þá hafði hann nýlega lokið námi í plötu- og ketilsmíði.
„Ég fékk strax vinnu í Vélsmiðju Grindavíkur eftir að ég flutti hingað. Ég starfaði í vélsmiðjunni þar til að hún var lögð niður. Bærinn keypti þá húsið og gerði að áhaldahúsi. Ég hóf störf þar og vann þar til að ég varð sjötugur.“

Laug sig til Eyja

Fyrstu daga og vikur eftir að gosið hófst í Eyjum sneru margir Eyjamenn aftur í Heimaey til að reyna að bjarga verðmætum. Adólf segir að hann hafi verið hluti af hópi manna sem hafi náð að ljúga sig út í Eyjar.
„Ég fór fljótlega frá Eyjum eftir að gosið hófst. Ég ásamt hópi manna vildum þó komast til Eyja til að bjarga verðmætum en okkur var hafnað. Við dóum ekki ráðalausir og sögðum við Almannavarnir að við ætluðum til Eyja að bjarga fé sem væri í Heimakletti. Við fengum leyfi með þessum skýringum. Það sem menn hjá Almannavörnum vissu hins vegar ekki var að það er ekkert fé í Heimakletti yfir vetrartímann og við náðum þannig að ljúga okkur til Eyja,“ segir Adólf og hlær.

„Við náðum að bjarga verðmætum og koma þeim til Þorlákshafnar og svo fór ég skömmu síðar á minn gamla vinnustað í sama tilgangi og dvaldi þá í nokkra sólarhringa. Það var átakanlegt að vera í Eyjum á meðan gosið var í gangi. Það gengu yfir mann hraunslettur og það var ótrúlegt að sjá byggðina hreinlega hverfa. Ég átti hús skammt frá gossprungunni - það brann og hrundi. Ég fékk húsið þó bætt og gat því keypt mér nýtt húsnæði í Grindavík.“

Brá við harkalega skjálfta

Adólf er 82 ára gamall í dag. Fljótlega eftir að hann og fjölskylda hans fluttust til Grindavíkur þá varð nokkuð harkaleg jarðskjálftahrina. Adólf hélt hreinlega að annað gos væri að hefjast í Grindavík.

„Um haustið eftir að við fluttum hingað þá gerði mikla jarðskjálftahrinu. Ég horfði út um gluggann og sá þá elda en þeir eldar voru á öskuhaugunum. Ég man að mér leið eins og ég væri í Eyjum. Við það brá mér illilega,“ segir Adólf sem kann vel við sig í Grindavík.

„Mér líkar vel í Grindavík. Það vantar auðvitað eitt og annað en maður sækir það í Reykjanesbæ. Grindavík og Vestmannaeyjar eiga það sameiginlegt að vera nánast sama rokrassgatið. Ætli ég myndi þó ekki sakna roksins ef það kæmi ekki annað slagið.“

Viðtal: Jón Júlíus Karlsson
mynd: Þorsteinn Gunnarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024