Bryndís og danslistin
„Mér finnst það besta í heimi að fá að kenna dans. Það er alveg sama hvaða dansstíl ég er að kenna, það er ekkert eins fagurt og stórkostlegt en þegar að nemandi fær skilning á hreyfingu líkama síns og tekur framförum, og fer að njóta þess að dansa, í sama hvaða formi það er. Ég fæ gæsahúð oft á dag af því að upplifa þetta í danskennslunni. Ég er lukkunnar pamfíll að fá að vinna við ástríðu mína, danslistina,“ segir Bryndís Einarsdóttir danskennari og danshöfundur, sem hefur opnað nýjan og glæsilegan dansskóla, Bryn Ballett Akademíuna, á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Nýja húsnæðið er fyrrverandi skotfærageymsla Varnarliðins og ótrúlegt að nú skuli dansarar á öllum aldri, frá 3 ára og upp í fimmtugt, hlúa að list sinni á þessum stað, sem segja má að sé beint á móti Fjörheimum, félagsmiðstöð unglinga í Reykjanesbæ.
Bryn Ballett Akademían er rekin af Njarðvíkingnum Bryndísi Einarsdóttur. Hún kýs að nefna skólann sinn ballet- og jazzballettskóla Reykjanesbæjar. Skólinn tók til starfa fyrir ári síðan í íþróttahúsinu á Ásbrú. Starfsemin hefur vaxið hratt og ljóst að starfsemin myndi ekki rúmast í íþróttahúsinu. Það er nóg af húsnæði í ýmsum stærðarflokkum í gömlu herstöðinni og eftir að hafa skoðað sig vel um á svæðinu varð gamla skotfærageymslan fyrir valinu.
Dansbúð og alvöru dansgólf
Í skólanum er dansbúð með vörum og dansfatnaði. Einn stór 218 fermetra danssalur með ekta dansgólfi og speglum fyrir dansara er kennslusalurinn í dag, en annar minni danssalur við hliðina á honum verður tekinn í notkun á næsta ári.
„Hérna er nóg pláss fyrir okkur til þess að stækka,“ segir Bryndís, himinlifandi með viðtökurnar sem hún hefur fengið síðastliðið ár.
Dansskólinn hefur stækkað ört og eru yfir 200 nemendur sem æfa vikulega og sumir oft í viku. Nemendur hafa sýnt bæði ballett og jazzballet á 17. júní hátíðarhöldunum í Reykjanesbæ, á Sandgerðisdögum, Ljósanótt og árshátíðum í Officera klúbbnum.
„Við hlökkum til að sýna aftur á þessum stöðum á næsta ári við öll þessi skemmtilegu hátíðarhöld,“ segir Bryndís.
Formleg opnun hjá BRYN verður síðasta laugardaginn í nóvember, þann 28., á milli 14:00-16:00. Það eru allir hjartanlega velkomnir segir Bryndís.
Jólasýning í St. Andrews
Framundan er jólanemendasýning allra nemenda í St. Andrews leikhúsinu á Ásbrú, sem er í sömu götu og hýsir yfir 400 gesti. Þar fá nemendur tækifæri til að sýna tvær sýningar þann 19. desember. Jólanemendasýningin verður árleg.
Þá verður Dansbikarinn haldinn í fyrsta sinn í mars næstkomandi, fyrir aldurshópana 10-12 ára, 13-15 ára og 16 ára og eldri. Dansbikarinn verður haldinn í St. Andrews leikhúsinu og er farandbikar í verðlaun og verðlaunapeningar fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki.
„Þetta verður eins og Tónabær í gamla daga,“ segir Bryndís og hlær, því að hún var Íslandsmeistari í Free-style í 13-15 ára og síðar aftur í 18 ára og eldri flokki.
Það eru ýmsir gestakennarar sem koma á næstu önn með svokallað „workshop“. Til dæmis koma Leifur Eiríksson, besti „breikari“ Íslands og Ragna Þyrí Dögg Guðlaugsdóttir, sem er frábær kennari í „Locking“.
Erlendir gestakennarar bíða í röðum
„Þá er líka von á gestakennurum frá útlöndum á næsta ári. Þeir eiginlega bíða í röðum eftir að koma hingað,“ segir Bryndís sem er búin að kenna dans í Ameríku, Englandi og Japan síðastliðin 15 ár.
Það eru kennarar sem kenna jazzballet, hip-hop, ballett, Duncan dance, nútímadans, street jazz og margt fleira.
Þetta eru allt vinir Bryndísar sem hún hefur dansað með eða kennt fyrir í útlöndum.
Ballettpróf frá Royal Academy of Dance (RAD) munu líka verða í boði. Þá kemur prófdómari til landsins frá Evrópu sem veitir viðurkenningar til nemenda, en þessi ballettpróf eru viðurkennd á heimsvísu. Morguntímar í Yoga með Ágústu Hildi Gizurardóttur munu hefjast í janúar og ýmislegt fleira, segir Bryndís.
Á næsta ári bætist við stundatöfluna stepp dans (tap-dance), sem er mjög vinsælt í útlöndum fyrir bæði kynin. „Það er alveg sérstök tilfinning að dansa stepp,“ segir Bryndís. „Ég tala nú ekki um, þegar maður er kominn með einhverja undirstöðu í dansi, þá er maður bara eins og besti dansari í heimi og gleðitilfinningin alveg að fara með mann í steppinu,“ segir hún og skellihlær.
Í dansinum í 26 ár
Bryndís byrjaði mjög ung að kenna dans og er búin að vera að þessu í 26 ár, ásamt því að vinna sem dansari og danshöfundur í allan þennan tíma. „Núna er ég skráður danskennari hjá Royal Academy of Dance og meðlimur hjá International Dance Teachers Association“. Bryndís er líka með BFA gráðu í leiklist, lærður nuddari og reiki heilari.
„Mér finnst sniðugt að hugsa til baka og muna eftir þegar að ég var tvítug og var alltaf með námskeið í jazzballett í Æfingastudeoi Bertu, ásamt því að kenna líka og sýna dans í Reykjavík. Þá var það einlægur draumur minn að vera með faglegan og metnaðarfullan dansskóla á heimsmæliskvarða hérna í heimabæ mínum. Það var sterkur draumur sem ég skildi aldrei við og er ég svo þakklát lífinu, fyrir að leiða mig hingað aftur“.
Það hefur verið mikil vinna að breyta húsnæði dansskólans í það sem það er í dag. Bryndís vildi koma á framfæri þökkum til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, allra iðnarmanna og sérfræðinga sem hafa unnið af alúð við bygginguna og gert hana svona skemmtilega. „Þetta er frábært fagfólk sem við eigum hérna. Við eigum að vera stolt af þessu fólki og það er frábært að vera komin heim í bæinn sinn,“ segir hin hláturmilda Bryndís Einarsdóttir í samtali við Blómstrandi mannlíf Víkurfrétta.