Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Bronco er alltaf bestur
  • Bronco er alltaf bestur
Föstudagur 17. mars 2017 kl. 13:29

Bronco er alltaf bestur

Gerði upp 30 ára jeppa úr fjórum bílum - Stofnaði hóp Bronco aðdáenda á Íslandi

Keflvíkingurinn Sigurjón Geirsson Arnarson hefur alltaf verið mikill áhugamaður um hina fornfrægu amerísku Bronco jeppa. Hann hefur undanfarin ár dundað sér við að gera upp tæplega 30 ára gamlan Bronco sem nú er kominn á göturnar. Sigurjón er bílamálari sem vandaði vel til verka og því vekur bílinn talsverða athygli þar sem hann fer.

Sem ungur maður fór Sigurjón iðulega austur að heimsækja afa sinn sem átti 1974 árgerð af Bronco. Hann hafði því alltaf haft löngun til þess að kaupa slíkan grip. „Afi heitinn sem bjó á Stöðvarfirði átti Bronco og þar held ég að bíladellan hafi kviknað. Það var alltaf ákveðin stemning að fara í þennan gamla bíl og að fá að keyra með kallinum. Eftir það varð ég sjúkur í gamla bíla. Ég hef gaman af því að gera upp og nostra við gamla hluti. Allt sem er antík finnst mér voðalega vænt um.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurjón dreymdi um að verða bílamálari eða myndlistakennari, en hann er afar listfenginn og flinkur með pensil og blýant. Hann fór þó aðeins aðra leið þar sem hann ákvað að fara í Tækniskólann og læra húsamálun. Hann ílengdist aðeins í málarastarfinu og tók þar meistararéttindi. Þegar hægjast fór um á atvinnumarkaði hugsaði Sigurjón sér til hreyfings og skellti sér í háskóla og nældi sér í kennararéttindi. Það hafði blundað í honum lengi að verða kennari. Sigurjón kennir nú bílasprautun í Borgarholtsskóla þar sem hann kann afar vel við sig enda hefur hann gaman af því að vinna með fólki og miðla kunnáttu sinni.

Bronco Sigurjóns er 1988 árgerð og er af tegundinni xl. Hann keypti bílinn fyrir rúmum sex árum. Síðan sankaði hann að sér fjórum Bronco bílflökum til viðbótar til þess að eiga varahluti og til þess að púsla saman sem bestum Bronco. Verkið vann hann í rólegheitum og var hann tæp fjögur ár að koma draumabílnum saman.

2300 manns í hóp Bronco aðdáenda

Sigurjón er það áhugasamur um þennan bandaríska jeppa sem var svo vinsæll hérlendis á árum áður, að hann tók sig til og stofnaði Facebook-hóp fyrir Ford Bronco á Íslandi. Meðlimir þess hóps eru nú 2.300 talsins og enn bætist í.

„Bronco er auðvitað alltaf bestur,“ segir Sigurjón og hlær aðspurður um hvernig gamli fákurinn standist nútímabílum snúning. „Þetta er auðvitað ekki sambærilegt við nútímabíla. Ég hef voðalega gaman af þessu og þykir vænt um þetta. Ég horfi ekki í þægindin, frekar hvað þetta er gaman.“

Liturinn á bílnum kom til vegna þess að gamlar Bronco dráttarvélar voru iðulega í þessum litum, þær voru yfirleitt bláar með hvítum felgum.  „Það er fullt af fólki sem stoppar mann á förnum vegi og spyr út í bílinn. Maður fær að heyra mikið af sögum þar sem fólk á margar Bronco tengdar minningar. Viðbrögðin eru mjög skemmtileg,“ segir bílamálarinn knái. En á hann sér drauma Bronco?
„Fjölskyldan á ennþá bílinn hans afa. Það er orginal 74´árgerð sem er ekinn rétt 43 þúsund frá upphafi. Það er eiginlega draumabíllinn. Það yrði toppurinn á tilverunni. Ég hef aðgang að honum annað slagið og nýt þess að aka honum á stöku sunnudögum.“ Sigurjón segist opinn fyrir því að ráðast í annað álíka verkefni og er með augun opin ef tækifæri gefst.

 

 

Bronco