Bríet Sunna opnar söngskóla á Ásbrú
Bríet Sunna Valdemarsdóttir söngkona opnar söngskóla í Reykjanesbæ þann 1. október nk. Skólinn hefur aðsetur í húsnæði Hjálpræðishersins á Ásbrú. Þar er flott aðstaða, svið og fullkomið hljóðkerfi.
Bríet Sunna hefur áður haldið söngnámskeið í Reykjanesbæ fyrir börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára en slík námskeið þurfti að sækja til Reykjavíkur. Henni fannst vera mikil eftirspurn en lítið framboð á slíkum námskeiðum á suðurnesjunum. Í samtali við Víkurfréttir segir Bríet Sunna að margt hæfileikafólk leynist á meðal ungra söngvara á suðurnesjum og hvetur hún alla þá sem langar til að prufa að skrá sig á heimasíðunni www.brietsunna.is.
Skólanum verður skipt upp í haustönn og vorönn. Á námskeiðunum er unnið í raddþjálfun, sviðsframkomu, textatúlkun, hljóðnematækni og sjálfsöryggi söngvara svo eitthvað sé nefnt.
Bríet Sunna segir að til sín komi fjölbreyttur hópur. Margir hafi engan bakgrunn í söng en hún hefur náð góðum árangri með alla aldurshópa.
„Börnin eru ótrúlega opin fyrir söngkennslunni. Þetta er það sem ég elska að gera,“ segir Bríet Sunna í samtali við Víkurfréttir.
Söngskólinn er einn tími í viku fram að áramótum sem endar með lokatónleikum um miðjan desember.
Í hópkennslunni verður aldursskipting svo auðveldara verði fyrir nemendur að mynda tengsl. Þá verða aldrei fleiri en sex í hóp, þannig að allir fái að njóta sín. Einnig verður boðið upp á einkatíma sem eru klukkustund í senn.
Nýlega opnaði heimasíðan hennar eins og áður hefur komið fram og þar er einnig hægt að lesa um söngkonuna og hlusta á hljóðbrot af þeim verkum sem hún hefur verið að vinna að.
Bríet Sunna hefur nýlokið þátttöku í Með blik í auga II, sem sýnt var í Andrews á Ásbrú á Ljósanótt.
Bríet Sunna er einnig að taka upp sitt eigið efni. Hún er að fara í hljóðver í dag, fimmtudag, til að taka upp lag sem er væntanlegt á markað fyrir jólin. Hún stefnir á frekari útgáfu á eigin efni á næstu misserum.