Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Bridget Jones minnir mig á mömmu“
Laugardagur 11. júní 2011 kl. 12:40

„Bridget Jones minnir mig á mömmu“

„Ég á lítinn strák og missti töluvert úr skóla eftir að ég eignaðist hann því ég tók mér frí í eitt og hálft ár. Þegar að ég byrja svo aftur þá ákveð ég að gera þetta bara af fullum krafti. Ég byrjaði í dagskólanum í FS og skráði mig í sumarskóla í Fjölbraut í Breiðholti auk þess að vera í fjarnámi í Verzló. Mér gekk vel í þessu og sá að þetta var vel hægt. Síðustu tvær annir hef ég verið að taka fjarnám í FÁ og Verzló samhliða dagskóla. Á síðustu haustönn tók ég 27 einingar og núna á vorönn lauk ég 33 einingum og er að klára núna í sumar.“ segir Brynja Bjarnadóttir 20 ára einstæð móðir úr Reykjanesbæ.

Hún hóf upphaflega framhaldsskólagöngu sína í FS haustið 2006. „Á 4. önn verð ég ólétt, 17 ára gömul. Ég ákveð að taka mér pásu frá skóla auk þess að taka mér frí frá fótboltanum en ég stundaði fótbolta af miklu kappi með m.fl. Keflavíkur. Jökull sonur minn fæðist svo í nóvember 2008 og í fæðingarorlofinu tók ég tvo áfanga í dagskóla FS. Þar þótti mér sveigjanleikinn góður þar sem ég fékk frjálsa mætingu og kennararnir mjög umburðarlyndir.“

Þetta krefst mjög mikils sjálfsaga og skipulags númer 1, 2 og 3. Mörgum fannst þetta fullmikil fljótfærni í mér að vera að klára þetta á svona skömmum tíma og höfðu í raun ekki trú á að þetta væri mögulegt en ég sýndi fram á það að þetta er vel hægt. Ég átti mér alveg félagslíf, hitti vinkonurnar og eyddi tíma með syni mínum og allt sem mig langaði til að gera en þegar tími gafst þá nýtti ég hann til hins ýtrasta. „Ég eyði góðum tíma á bókasafni Reykjanesbæjar þar sem er gott andrúmsloft og frábært starfsfólk. Mér finnst gott að læra á bókasafninu og get einbeitt mér vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Haustið 2009 hóf ég nám í förðunarfræði í Snyrtiakademíunni. Það nám þótti mér mjög skemmtilegt. Ég útskrifaðist svo sem förðunarfræðingur um jólin það ár.
Vorið 2010, eftir rúmlega eins og hálfs árs pásu frá framhaldsskóla byrjaði ég aftur. Fyrsta önnin var fremur róleg. Í febrúar það ár sleit ég liðband á hægra hné en áður hafði ég slitið krossband á sama hné og var mér ráðlagt að byrja ekki aftur. Þar sem sumarið var búið í fótboltanum ákvað ég að nýta samt tímann vel. Ég skráði mig í sumarskóla FB og fjarnám í Verzlunarskóla Íslands. Þarna uppgötvaði ég frábæran möguleika.“

„Mér finnst menntun skipta miklu máli í samfélaginu í dag og eykur alla atvinnumöguleika í þessu ástandi sem við búum við í dag. Svo langaði mig bara að drífa í þessu og hefja nám í háskóla, það er aðalmálið. Það er erfitt að vera í fjölbrautakerfinu þar sem ekkert er lánshæft og ekki sama aðstoð og þegar maður er komin í háskóla. Hefði ég tekið þetta á eðlilegum hraða hefði þetta kannski verið mun erfiðara fjárhagslega séð. Ég ákvað því að gera þetta svona og sé svo sannarlega ekki eftir því.“

Verður þú var við það að stelpur á þínum aldri sem eignast börn hætti í námi?
„Það getur verið frekar algengt að þær sjái ekki mikla möguleika í stöðunni þegar þær eru komnar með barn og ekki mikill tími til að sinna öðru. Mér finnst reyndar kerfið í dag orðið svo gott hvað námið varðar. Þú getur deilt þessu niður á nokkra skóla og oft er einmitt mikill sveigjanleiki þegar að maður tekur ekki dagskóla. Þá taka kennarar tillit til þess að maður kemst kannski ekki í alla tíma ef maður þarf að sinna veiku barni eða slíkt.“

Brynja segist ekki hafa haft neinar sérstakar áætlanir áður en hún varð ólétt. Hún segir hins vegar að hlutirnir hafi breyst til betri vegar enda varð hún að gjöra svo vel og fullorðnast og sýna smá ábyrgð og að mennta sig. „Ég fór virkilega að hugsa um að ég þyrfti að geta veitt syni mínum allt það sem hann á skilið og ég hugsaði mikið um framtíð okkar beggja, mér fannst menntun spila stórt hlutverk í þessum áformum.“ Formleg útskrift verður ekki fyrr en næsta haust en ég fæ að byrja í háskóla í haust. Ég mun verða samferða mörgum jafnöldrum mínum í háskólanám sem tekið hafa sér frí eftir útskrift. Ég er bæði búin að sækja um í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Ég er ekki alveg ákveðin í hvað ég ætla mér en sótti um í hjúkrunarfræði.

Í sumar ætlar Brynja að njóta þess að vera með Jökli syni sínum og gera margt skemmtilegt með honum. Fara uppí sumarbústað og fleira í þá áttina. Við stelpurnar skellum okkur með öllum líkindum í skemmtilega útileigu. Og að sjálfsögðu fer ég í Heiðartúnsútileiguna, hún stendur alltaf fyrir sínu. Í sumar ætla ég að láta innanlandsferðirnar duga. Ég vona samt að ég geti farið austur á Neskaupstað og hitt föðurfólkið mitt.“

Brynja segir helstu áhugamál sín vera Snjóbretti og fótbolti. „Við fjölskyldan erum mikið skíða- og brettafólk og nýtum flesta daga sem gefast til þess að fara upp í fjöll. Heima hjá foreldrum mínum er mikið horft á fótbolta. Pabbi þjálfar mfl. Stjörnunar svo það er fylgst vel með Pepsi-deildinni,“ en faðir hennar er Bjarni Jóhannsson sem hefur átt langan og farsælan feril sem þjálfari á Íslandi.


Brynja verður að vinna í lækningalindinni í Bláalóninu í sumar en einnig hyggst hún reyna að taka að sér förðun þegar tími gefst.


Við fengum Brynju til að svara nokkrum spurningum um eftirlætis hlutina sína.


Hlutur

„Síminn minn. Ég er í miklu símasambandi við mitt fólk og þá sérstaklega tvíburasystur mína hana Bryndísi sem býr í Reykjavík. Við söknum hvor annarrar mjög mikið á daginn þegar við erum ekki saman og hringjum oft í hvor aðra.“

Flíkin

„Í augnablikinu er það gallajakkinn. Hann passar við öll sumarfötin mín og gott að geta skellt sér í hann þegar maður hoppar út í bíl í köldum júní mánuði. Síðan eru það converse skórnir, ég á þá alltaf. Ég er fatafrík.“

Matur

„Við vinkonurnar erum sjúkar í Ceasar salatið á Vegamótum. Annars þykir mér allskyns pastaréttir góðir sem ég geri sjálf. Mér finnst mjög gaman að elda.“

Drykkur

„Da Vinci á Kaffitár.“

Tónlist

„Nýja plata GusGus, Arabian Horse finnst mér mjög góð og Högni úr Hjaltalín er að gera fína hluti með þeim. Okkar ástkæra hljómsveit Valdimar er líka í miklu uppáhaldi, frábærir og uppstígandi listamenn. Í rólegheitunum hlusta ég á The xx, ég uppgötvaði hana fyrir rúmlega ári. Áður var ég mikill Sigur Rósar aðdáandi og er í raun enn því ég gríp oft í gömlu góðu lögin þeirra.“

Kvikmynd

„Fór með systur minni og vinkonu á Pirates of the Caribbean í bíó í vikunni. Það var nóg fyrir okkur að Johnny Deep er myndarlegur í sínu hlutverki. Annars er einn af mörgum góðum kostum við að vera mamma er að ég horfi stundum með Jökli á teiknimyndirnar. Ég hef mjög gaman af þeim. Bridget Jones finnst mér mjög fyndin, því hún minnir mig svo mikið á mömmu.“

Þáttur

„Ég hef ekki dottið í neina þætti lengi. Dexter, Prison Break, King of Queens og Lost hafði ég gaman af.“

Bók

„Ég verð að viðurkenna það að „Sjálfstætt fólk“ eftir Halldór Laxness stendur mikið uppúr en ég las hana í skólanum á síðustu önn. Bókin sem ég er að lesa núna heitir „And then they were none“ eftir Agatha Christie. Hún er mjög spennandi og ég býst við að ég klári að lesa hana í kvöld.“

Vefsíðan

„Er mikð að skoða heimasíðu HÍ og HA þessa daganna, til að gera upp hug minn.“


Mynd: Katrýn S. Ágústsdóttir