Breytingar leggjast misvel í fólk en flestir ánægðir
Innleiðing breytinga á söfnun úrgangs frá heimilum á Suðurnesjum gengur vel
„Verkefnið hefur gengið býsna vel og í dag erum við aðeins á undan áætlun. Við stefnum að því að dreifingu nýrra íláta verði lokið um miðjan ágúst. Björgunarsveitirnar í Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum hafa unnið þetta með okkur og staðið sig frábærlega,“ segja þau Davor Lucic, rekstrarstjóri sorphirðu og móttökuplana hjá Kölku, og Anna Karen Sigurjónsdóttir, sjálfbærnifulltrúi Reykjanesbæjar, en þau hafa verið í forystuhlutverkum við undirbúning og innleiðingu breytinga á söfnun úrgangs frá heimilum á Suðurnesjum í kjölfar gildistöku nýrra laga um úrgangsmál.
Davor Lucic er rekstrarstjóri sorphirðu og móttökuplana hjá Kölku. Hann fluttist til Íslands frá Króatíu fyrir 25 árum og er orðinn Suðurnesjamaður í húð og hár. Anna Karen Sigurjónsdóttir er líka af Suðurnesjum, nánar til tekið frá Grindavík. Hún starfar sem sjálfbærnifulltrúi Reykjanesbæjar.
Þótt verkefnið virðist einfalt í fyrstu, að fjölga einfaldlega ílátum og gefa út nýjar flokkunarleiðbeiningar, hefur verið að ansi mörgu að hyggja. 11.946 ný ílát hafa verið keypt og 43.895 límmiðar hafa verið prentaðir. Ílátin þarf svo að setja saman, merkja og dreifa til íbúa. Auk þess hafa þau unnið að kynningu á nýrri skipan þessara mála. Víkurfréttir spurði þau frétta af gangi mála.
Flestir ánægðir
Þessar breytingar leggjast misvel í fólk að sögn þeirra tveggja. „Meginþorri fólks tekur þessu vel. Ég held að fólk vilji almennt sjá einhver framfaraskref í þessum málum. Svo er auðvitað einstaka íbúi sem er óhress með þetta. Sumir vilja hafa þetta óbreytt,“ segir Anna Karen og Davor ítrekar að það sé hins vegar ekki í boði að breyta ekki. „Lögin eru skýr og kveða á um fjóra flokka við heimili, plast, pappa/pappír, lífrænan úrgang úr eldhúsinu og óflokkaðan úrgang til brennslu. Það er lágmarkskrafan. Lögin gera svo einnig kröfu um að söfnun á málmum frá heimilum, gleri, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum skuli bjóða í nærumhverfi íbúa. Það verður því næsta verkefni að þessu loknu að taka upp þráðinn við uppbyggingu grenndarstöðva.“
En hver er hvatinn að baki þessum lagabreytingum?
Anna Karen og Davor segja að rannsóknir sýni skýrt að góð flokkun á heimilum tryggi bestu mögulegu heimtur á endurvinnanlegum efnum. Það fer einfaldlega meira inn í hringrásina frá þeim sem flokka vel heima. Þannig fari minna af úrgangi til förgunar með tilheyrandi létti fyrir auðlindir jarðar.
En hvað um fréttaflutning af brennslu endurvinnanlegra efna, nú síðast fernumálið? Getur almenningur treyst því að það efni sem það flokkar skili sér raunverulega í endurvinnslu?
„Það er ekki allt efnið sem við söfnum raunverulega endurvinnanlegt. Við gætum verið að tala um kannski 75% en það sem eftir stendur fer þá til orkuendurvinnslu í Evrópu og kemur í stað jarðefnaeldsneytis,“ segir Davor. „Hringrásarhagkerfið er að verða til. Það er ekki tilbúið,“ bætir Anna Karen við og útskýrir að víða sé verið að byggja upp nauðsynlega innviði og mikilvægt sé að íbúar séu tilbúnir til þess að taka þátt í þessum breytingum.
Af máli þeirra beggja má ráða að miklar breytingar séu að verða á mörgum sviðum. Fjárhagslegir hvatar munu þrýsta á framleiðendur að velja endurvinnanleg efni í sínar vörur og umbúðir. Umbúðir þurfa almennt að léttast til að draga úr þörfinni fyrir stöðuga framleiðslu á nýju plasti. Einstaka mál eins og fernumálið breyti engu um hvert við stefnum. Við þurfum að hætta að urða og virkja hringrásina.
Að lokum hvetja þau íbúa til þess að taka þátt í þeim breytingum sem fram undan eru og benda á að ítarlegri upplýsingar má nálgast á vefnum www.flokkum.is. Að sjálfsögðu geta íbúar svo alltaf haft samband við sitt sveitarfélag eða Kölku ef frekari upplýsinga er þörf.