Breytingar hjá Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ
Hjálpræðisherinn hóf störf sín í Reykjanesbæ haustið 2007 með komu foringjanna Esterar og Wouters van Gooswilligen. Í upphafi var sniðið smátt, stofnaður var gospelkór og samkomur fóru fram í bílskúr við húsnæði hjónanna á Hólabraut. Samstarf hófst strax við KFUM og KFUK þar sem Ester hóf vísi að gospel barnakór sem starfaði í húsnæði félaganna og tengdist yngri hópa starfi þeirra.
Árið 2008 festi Hjálpræðisherinn kaup á húsnæði á Ásbrú, Flugvallarbraut 730, þar sem starfsemi hersins fer fram. Hjónin hafa ásamt sjálfboðaliðum komið á fót söfnuði sem heldur samkomur hvern sunnudag, rekið herskjól sem upphaflega var frístundaheimili en í dag er opið einn dag í viku, verið með söngstarf fyrir börn og ungmenni- Gospelkrakka, verið með smáhópastarf, Hertex nytjamarkað, of velferðarstarf svo eitthvað sé nefnt.
Nú hafa þessi öflugu hjón fengið nýja köllun til starfa á erlendum vettvangi. Hjónin Ester og Wouter munu í sumar ásamt börnum sínum flytja til Paraguy þar sem þau munu reka barnaheimili, stúdentaheimili fyrir stúlkur og söfnuð á vegum Hjálpræðishersins. Hjónin kynntust starfinu í Paraguy síðasta sumar þegar þau dvöldu sumarlangt á staðnum og aðstoðuðu eftir þörfum. Það verður mikil eftirsjá af þessu góða fólki.
Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ mun þó ekki leggja árar í bát. Þann 1. ágúst kemur til starfa nýr foringi frá Noregi. Hún heitir Elin Kyseth og er þrítug að aldri. Elin er sérkennari að mennt ásamt því að hafa lokið foringjaskóla Hjálpræðishersins. Ekki er henni einni ætlað að sjá um að fylla í skarð þeirra Esterar og Wouters heldur munu hjónin Ingvi Skjaldarson og Hjördís Kristinsdóttir hefja nám við foringjaskóla Hjálpræðishersins í haust ásamt því að vinna í hlutastörfum fyrir Herinn með Elinu.
Kveðjusamkoma fyrir Ester og Wouter verður á Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ sunnudaginn 16. júní kl. 16:30 og eru allir velkomnir.