BRESKIR HERMENN Á GÖTUM KEFLAVÍKUR
Ólafur Björnsson fæddist í apríl 1924 og foreldrar hans fluttust til Keflavíkur þegar hann var fimm ára gamall. Hann hefur búið í Keflavík síðan, en bjó um sex ára skeið í Hafnarfirði. Ólafur hefur starfað við útgerð mestan part ævi sinnar. „Mér er í fersku minni morguninn sem Bretar komu hingað til að hertaka Ísland í síðari heimstyrjöldinni. Þetta var að morgni 11. maí og ég var á leið að stokka upp og ganga frá því báturinn var í síðasta róðri. Ég kom niður Aðalgötuna og sá að eitthvað var að ske sunnan við Tjarnargötu. Á þessum tíma var brú yfir rásina á Hafnargötunni en hún var þröng og fát hefur komið á dátana þegar þeir sáu brúna með þeim afleiðingum að tveir breskir trukkar lentu ofaní rásinni. Þeir komust síðan upp úr henni og héldu áfram“, segir Ólafur en togarasaga Íslendinga er honum líka ofarlega í huga þegar hann lítur yfir farinn veg.„Ég var stýrimaður á togaranum Júní frá Hafnarfirði. Um sumarið 1946 fór Andrés Gunnarsson vélstjóri með okkur yfir til Englands. Meðferðis hafði hann módel af skuttogara sem hann hafði hannað. Þetta var löngu áður en fyrsti skuttogarinn var byggður. Hann fór til að kynna uppfinningu sína á Englandi. Bretarnir hlustuðu á hann en vildu síðan ekkert meira við hann tala, ekkert frekar en Íslendingar. Tveimur til þremur árum síðar byggðu Bretar fyrsta skuttogarann en á sama tíma voru Íslendingar að láta smíða 30 síðutogara, svokallaða nýsköpunartogara. Ég lét síðan byggja fyrsta bátinn sem notaði skuttog, Baldur. Það var árið 1961 en fyrsti skuttogarinn var ekki keyptur til Íslands fyrr en 1969.“