„Brasilískt Jiu Jitsu er lífstíll,“ sagði Björn Vilberg
Björn Vilberg Jónsson, 27 ára atvinnuflugmaður, útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og atvinnuflugmannsréttindi frá Flugskóla Íslands. Hann fiktar einnig við Brasilískt Jiu Jitsu í Combat Gym sem er bardagaíþróttastöð í Ármúla 1 í Reykjavík en Björn hefur stundað þetta samviskusamlega síðan í september árið 2009.
Björn hefur einnig verið að fikta við gítarinn. „Já, ég er svona mellufær á gítarinn. Ég tók upp á því um tvítugt að kenna sjálfum mér að spila og er búinn að vera glamra eitthvað síðan,“ sagði Björn.
Í dag starfar hann hjá Iceland Express í flugrekstrardeildinni. „Ég sé um ýmislegt sem viðkemur flugrekstri Iceland Express, t.d. þjónustusamninga við flugvelli og flugþjónustuaðila. Þetta eru dagleg samskipti við þessa aðila og ýmiskonar verkefni sem snúa að áætlun félagsins.“ Björn hefur starfað í flugbransanum síðan árið 2002 í hinum ýmsu störfum hjá flugþjónustuaðilum og flugfélögum en hann hefur komið að flestum hliðum flugreksturs í gegnum tíðina.
„Mér líkar þetta starf mjög vel. Þetta er eitthvað sem ég hef mikla reynslu í og þessi bransi er síbreytilegur og verður seint einhæft að halda flugvélum fljúgandi,“ bætti Björn við. Aðspurður hvað draumastarfið væri sagði Björn það auðvitað vera að fljúga flugvélum þar sem hann væri nú búinn að læra það. „Það verður vonandi að veruleika sem fyrst.“
Brasilískt Jiu Jitsu á allan hug Björns þessa daganna og hefur gert það meira og minna síðan hann byrjaði. „Þetta er íþrótt sem reynir bæði á líkama og sál og ég veit fátt betra en að sofna á kvöldin eftir vel heppnaða æfingu,“ sagði Björn aðspurður hvernig hobbí þetta væri. „Ég hef eignas marga góða vini í gegnum íþróttina, öðlast sjálfstjórn og sjálfsöryggi sem að ég hafði ekki áður. Ég myndi samt varla skilgreina Brasilískt Jiu Jitsu sem hobbí fyrir mig. Þetta er frekar lífstíll,“ sagði Björn að lokum.
[email protected]