Bragi sýnir í Listatorgi
Myndlistarmaðurinn Bragi Einarsson opnar sýningu á verkum sínum í sal Listatorgs í Sandgerði næstkomandi föstudag, þann 1. maí. Á sýningunni verða olíumálverk sem Bragi hefur unnið á síðasliðnum tveimur árum.
Myndefnið sækir Bragi m.a. í landslag á Suðurnesjum og yfir Faxaflóann, en sjórinn og landslagið á Suðurnesjum hefur lengi verið viðfangsefni listamannsins í gegnum tíðina. Einnig eru á sýningunni nokkrar fígúratífar myndir sem sýna fólk við ýmis störf og leik til sjávar og sveita.
Bragi er menntaður grafískur hönnuður en hefur á undanförnum árum fengist meira við pensilinn og minna við hönnun. Þetta er sjötta einkasýning hans en jafnframt sú fyrsta utan Garðsins.
Síðustu ár hefur Bragi kennt myndmennt við Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Einnig sinnir hann námskeiðahaldi í myndlist, bæði í teikningu og litameðferð.
Sýningin verður opin alla daga frá kl. 13-17 en henni lýkur þann 17. maí.
---
Mynd: Bragi nálgast viðfangsefni sín oft á skemmtilegan hátt með nýjum sjónarhornum á kunnugleg myndefni.