Mannlíf

Bragi söng í beinni á BBC
Sunnudagur 25. september 2016 kl. 06:00

Bragi söng í beinni á BBC

-Kirkjukórfélagar í Sandgerði hvöttu Braga á sínum tíma til að fara í söngnám

Óperusöngvarinn Bragi Jónsson úr Sandgerði kom fram á lokatónleikum tónlistarhátíðarinnar BBC Proms sem sýndir voru í beinni útsendingu í breska ríkissjónvarpinu og víðar um þar síðustu helgi. BBC Proms stendur yfir í tvo mánuði og fer fram í Royal Albert Hall og á dagskránni er fjölbreytt klassísk tónlist. Sinfóníuhljómsveit Íslands kom fram á hátíðinni árið 2014 og í fyrra var orgelkonsert Jóns Leifs leikinn. Bragi segir það hafa verið svolítið taugatrekkjandi að syngja í beinni útsendingu á BBC en að sama skapi ánægjulegt hve vel gekk.

„Ég var ekki neitt sviðsdýr áður en ég byrjaði í söng en svo allt í einu þurfti ég að fara að syngja fyrir framan fólk og er orðinn nokkuð sjóaður í því. En tilhugsunin um að syngja í beinni var svolítið stressandi,“ segir hann. Verkið sem Bragi söng í heitir Serenade to Music og er eftir Ralph Vaughan Williams. Hann segir boðið um að syngja á tónleikunum hafa komið nokkuð óvænt en sú sem sá um að finna söngvara í verkið hafði unnið með Braga við óperu árið 2014. Allir söngvararnir sungu stutt sóló og segir Bragi ómetanlegt að geta bætt tónleikunum á ferilskránna. „Margir þeirra söngvara sem ég söng með eru Bretar og ég fann hjá þeim hversu merkilegt það var að fá boð um að taka þátt. Ég hafði ekki gert mér fyllilega grein fyrir því áður. Það var því mikill heiður að fá að syngja á þessum viðburði í Royal Albert Hall, hinum megin við götuna þar sem ég var í skóla.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bragi með Dísellu Lárusdóttur, eiginkonu sinni. Myndin var tekin fyrir utan Royal Albert Hall þar sem Bragi söng á lokatónleikum BBC Proms á dögunum.

 

Byrjaði 11 ára í kirkjukór
Bragi ólst upp í Garði í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Þar gekk hann í skóla í Lundi í Öxarfirði og byrjaði 6 ára gamall í tónlistarnámi og lærði fyrst á trompet og síðar á píanó. Þegar hann var 13 ára gamall flutti fjölskyldan til Sandgerðis og þar hélt Bragi píanónáminu áfram en áhuginn dvínaði fljótt og hætti hann námi 15 ára gamall. Fyrsta reynsla Braga af söng var í kirkjukórnum í Kelduhverfi þegar hann var 11 ára. Braga líkaði strax vel í kórnum og söng með honum þangað til hann flutti suður. Eftir að fjölskyldan flutti til Sandgerðis byrjaði mamma hans að syngja með kirkjukórnum þar og ein jólin nokkrum árum seinna bað hún Braga að syngja með. „Ég mætti á æfingu og byrjaði að syngja sem tenór eins og ég hafði gert í sveitinni en karlarnir í kórnum voru fljótir að benda mömmu minni á það að ég væri enginn tenór heldur ætti ég frekar heima í bassanum. Síðan var það um jólin 2005 að kórfélagar í kirkjukórnum í Sandgerði fóru að hvetja mig til að fara nú bara að læra söng,“ segir Bragi sem var nú ekkert á því en skráði sig einhverra hluta vegna í inntökuprufur fyrir Söngskólann í Reykjavík. „Þangað mætti ég án þess að vita út í hvað ég væri að fara, fann lag í söngbók sem ég kunni og söng það fyrir fólkið og var tekinn inn. Eftir það má segja að eitt hafi leitt af öðru. Skömmu eftir að maður byrjaði í Söngskólanum var maður kominn í söngferð til Rússlands og svo stuttu seinna orðinn meðlimur í Kór Íslensku Óperunnar.“ Eftir að Bragi lauk námi frá Söngskólanum lá leiðin í meistaranám við Royal College of Music í London og þaðan útskrifaðist hann sumarið 2013.

Söngelsk fjölskylda á faraldsfæti
Í dag býr Bragi í Grafarvogi í Reykjavík með sambýliskonu sinni, Dísellu Lárusdóttur, söngkonu. Þau eiga tvo syni, þá Bjart Lárus 6 ára og Jökul Orra, 18 mánaða. Þau fjölskyldan eru mikið á faraldsfæti því Dísella syngur mikið erlendis og er þar jafnvel í nokkra mánuði í senn og því eru þau oftar en ekki með annan fótinn í útlöndum. Næstu jólum og áramótum ætla þau að verja í New York þar sem Dísella mun syngja við Metropolitan Óperuna þar í borg.

Samhliða söngnum og söngnámi hefur Bragi starfað hjá Byko. Hann byrjaði að vinna hjá Byko í Reykjanesbæ árið 2003 með skóla, bæði framhalds- og háskólanámi og hefur frá árinu 2007 starfað á vörustjórnarsviði fyrirtækisins. „Þegar ég var í London í námi og svo eitt ár í New York vann ég í fjarvinnu fyrir Byko og það var svo sannarlega mikils virði,“ segir hann. Hér á Íslandi syngur Bragi oft í jarðarförum með karlahópnum Voces Masculorum og segir að þrátt fyrir að tilefnin séu ekki gleðileg sé alltaf jafn gott að stökkva úr amstrinu í Byko og syngja fallega tónlist með félögum sínum

 

Bragi við auglýsingu á BBC Proms og bendir á nafn sitt. Proms er tveggja mánaða sumarhátíð í Royal Albert Hall þar sem boðið er upp á fjölbreytta klassíska tónlist, allt frá gömlum og vel þekktum verkum til frumflutnings á nýjum. Miðaverði er stillt í hóf svo sem flestir geti kynnst og upplifað klassíska tónlist. Sem dæmi um fjölbreytileika hátíðarinnar var haldið sérstakt David Bowie Prom í ár og auk þess eru haldin raftónlistarprom í Royal Albert Hall og rokk/popp prom í Hyde Park. Lokakvöldinu, sem Bragi kom fram á, er fagnað á fimm stöðum samtímis, sem allir tengjast í sjónvarpinu og á risaskjám.

 


 

Bragi með fjölskyldunni. Eiginkona hans er Dísella Lárusdóttir söngkona. Þau eiga tvo syni, Bjart Lárus 6 ára og Jökul Orra, 18 mánaða.

Hér má sjá myndband þar sem Bragi syngur O wie will ich triumphieren eftir Mozart.