Bragi Einarsson sýnir á Garðskaga
Bragi Einarsson mun halda málverkasýningu á Sólseturshátíðinni í Garði og mun hann opna formlega sýninguna á morgun, föstudaginn 29. júní, en sýningin stendur til 15. júlí. Myndirnar á sýningunni eru úr ýmsum áttum og allar unnar í olíu, en þetta er önnur sýning Braga þar sem hann er að mála með olíulitum. Hingað til hefur hann verið þekktur fyrir vatnlitamyndir sýnar. Sjálfur segir hann að það hafi reyndar verið plássleysið sem varð þess valdandi að hann vann á árum áður í vatnslitum, en sl. 3 ár hefur hann haft rúmgóða vinnuaðstöðu og fór að prufa olíulitinn.
Fyrsta einkasýning Braga var í Samkomuhúsinu í Garði árið ´86, önnur sýning hans var í Sæborgu 1991, sýning á skrifstofu Lífeyrissjóðs Suðurnesja 2004-5, sýning í Vitavarðahúsinu á Garðskaga 2006 auk samsýningar með Baðstofuhópnum fyrir margt löngu síðan.
Bragi er menntaður grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur verið að mála og teikna með hléum en hefur gefið sér meiri tíma nú síðustu 5 ár. Bragi starfar nú sem framhaldskólakennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann kennir á Listnámsbraut.