Bræður Björgvins Páls með fulla trú á Íslenska landsliðinu
Björgvin Páll Gústavsson á ættir að rekja til Suðurnesja en þar búa bræður hans og faðir. Bræður Björgvins, Margeir Felix og Axel Birgir Gústavssynir stunda báðir nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fylgjast spenntir með bróður sínum en hann hefur varið flest skot á mótinu hingað til.
„Við fylgjumst með hverjum leik og fögnum með hverri vörslunni hjá Bjögga bróður,“ sögðu strákarnir. „Mamma er frekar róleg en pabbi er svolítið taugaóstyrkur og á það til að hoppa aðeins yfir leikjunum,“ sagði Margeir aðspurður hvernig stemningin væri heima.
Strákarnir eru hálfbræður Björgvins Páls og hafa gott samband við Björgvin. Þeir hafa þó ekki búið í sama húsi og Björgvin en hann bjó með foreldrum þeirra á Hvammstanga í stuttan tíma. „Við höldum mikið samband við Bjögga enda miklir aðdáendur hans, eins og kanski margir.“ sagði Axel.
Ísland er nú að spila sinn annan leik í dag í milliriðlinum á móti Spánverjum og þarf að vinna þann leik til að eiga möguleika á að komast í undanúrslitin. „Við skellum okkur klárlega út til Svíþjóðar ef Ísland kemst í undanúrslitin og ég held að við förum alla leið, ekki spurning og tökum Frakkana í úrslitum,“ sagði Margeir með fulla trú á Íslenska liðinu. „Við þorum samt ekki að bóka flugið ennþá,“ bætti hann svo við.
[email protected]
Mynd: sport.is - Hilmar Þór