Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bráðskemmtilegur Hamagangur í hellinum
Mánudagur 2. desember 2013 kl. 13:40

Bráðskemmtilegur Hamagangur í hellinum

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi á föstudagskvöld jólaleikritið Hamagangur í hellinum. Verkið er unnið upp úr öðru leikriti en stytt og staðfært á skemmtilegan hátt af leikhópnum sjálfum. Ýmsar kunnuglegar og litríkar persónur munu koma fram í verkinu sem gerist í helli Grýlu og Leppalúða þar sem jólasveinarnir undirbúa komu jólanna ásamt foreldrum sínum og gæludýrum. Þrír kettir taka þátt í sýningunni; gamli jólakötturinn, nýi jólakötturinn og einn alvöruköttur.
 
Halla Karen Guðjónsdóttir, sem leikur Grýlu, sagði í viðtali við Víkurfréttir í síðustu viku að sagan leiði áhorfendur einnig inn á hótel í Reykjanesbæ þar sem skemmtilegir og óvæntir hlutir gerast.

Hamagangur í hellinum er þriðja verkið sem fer á fjalir Frumleikhússins á þessu ári og það segir allt um grósku leiklistarstarfs hér á svæðinu. Enginn leikstjóri var ráðinn að þessu sinni heldur tók hópurinn að sér, í annað sinn frá upphafi, að stýra í sameiningu.

Halla Karen segir það hafa gengið mjög vel. Verkið verður sýnt um helgar fram að jólum, sýningin tekur eina klukkustund og er fyrir alla fjölskylduna.

Miðaverði er stillt í hóf, aðeins 1000 krónur, til þess að sem flestir geti nýtt sér það tækifæri að stíga örlítið út úr jólaösinni og njóta þessarar skemmtilegu sýningar.

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á frumsýningu á föstudagskvöld.




























Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024