Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 14:55

BOTNDÝRARANNSÓKNIR Á HEIMSMÆLIKVARÐA

Fræðasetrið og Botndýr á Íslandsmiðum í Sandgerði: Rannsóknarstöðin í Sandgerði hefur haslað sér völl í alþjóðlegum vísindarannsóknum. Meðal rannsókna sem þar eru unnar er verkefnið Bioice, sem felst í rannsóknum á botndýrum við Íslandsstrendur. Verkefnið Bioice er á vegum Umhverfisráðuneytisins í samstarfi við Hafró, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands og Sandgerðisbæ. Nú þegar er farið að nýta upplýsingar úr þessum rannsóknum víða um heim. Reynir Sveinsson forstöðumaður Fræðasetursins sagði að aðsókn að Fræðasetrinu hefði aukist töluvert í sumar. „Hingað koma Íslendingar, útlendingar á eigin vegum og einnig er mikið um að hópar, sem eru í hvalaskoðunarferðum á vegum Helgu Ingimundardóttur, komi í heimsókn. Skólahópar hafa líka aukið komur sínar. Við verum búin að auglýsa mjög víða að undanförnu, m.a. í bílaleigubílum og á helstu upplýsingakortum sem gefin eru út. Eftir að við tókum nýja rannsóknarstöð í notkun, sjávarsetrið, hafa fleiri erlendir vísindamenn dvalið hér við rannsóknarstörf. Þeir eru orðnir 26 á þessu ári. Þeir gista á efri hæðinni hjá okkkur í 2 vikur og allt upp í 3 mánuði.” Hvað eru þeir að vinna við? „Þeir eru að vinna ýmis botndýra- og þörungarannsóknarverkefni á heimsmælikvarða. Þeir fara mikið í bátsferðir og fjöruferðir til að taka sýni og safna sínum fyrir Bioice. Svo er unnið úr upplýsingunum hér hjá okkur. Allar niðurstöður fara inná sérstakan gagnagrunn um botndýralíf, sem verið er að búa til.” Hefur þessi starfsemi mikla þýðingu fyrir Sandgerðisbæ? „Rannsóknarstöðin útvegar heimafólki atvinnu. Hér eru níu starfsmenn í fullu starfi á rannsóknarstöðinni og tveir sem vinna á fræðasetrinu.” Er einhverra breytinga að vænta á næstunni? „Nú eru stórframkvæmdir í gangi. Við erum að taka allt umhverfi hússins í gegn, helluleggja og malbika. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá10 milljónir og Sandgerðisbær fjármagnar verkið. Um áramótin er áætlað að Náttúrustofa Reykjaneskjördæmis taki til starfa hér í húsinu og nú er nefnd að vinna að undirbúningi að stofnun stofunnar. Í kjölfarið mun starfsmannafjöldi aukast. Grindavíkurbær tekur þátt í því starfi með okkur. Við eigum höfum mikið pláss sem er eftir að ráðstafa.” Guðmundur Víðir Helgason er yfirmaður Rannsóknarstöðvarinnar. Hann sagði að starfsfólkið á Rannsóknarstöðinni ynnu við að flokka sýni sem eru síðan send til sérfræðinga í fimmtán löndum. „Evrópubandalagið styrkir svo erlenda vísindamenn sem koma hingað til að vinna við rannsóknir.” Jörundur Svavarsson er einn þeirra sem vinnur að rannsóknum í Sandgerði. Hann er prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands og vinnur á Rannsóknarstöðinni á vegum Líffræðistofnunar H.Í. Hann er þekktur fyrir rannsókn sína á eituráhrifum ákveðins efnis sem finnst í botnmálningu skipa. Hann sýndi framá að þetta efni veldur vansköpun hjá nákuðungum og hefur mjög skaðleg áhrif á fleiri sjávarlífverur. Nú tengjast rannsóknir hans botndýraverkefninu og hann kannar einnig mengun sjávarins. „Við erum búin að finna fjölda nýrra tegunda, höfum safnað saman dýrmætum sýnum og erum að vinna að mjög mikilvægum gagnabanka. Síðasta sambærilega rannsókn á líffræði sjávarins við Íslandsstrendur, var gerð sumrin 1895 og 1896. Þá kom hingað danskt varð-og rannsóknarskip, Ingolf, sem kannaði svæðið í kringum Grænland, Ísland og Færeyjar. Árangurinn birtist á 5555 blaðsíðum og kom út á 56 ára tímabili, því alltaf var eitthvað nýtt að koma í ljós.” Anna Sigríður Sveinsdóttir er safnvörður á Fræðasetrinu. Hún sagði að sjómennirnir á svæðinu hefðu verið duglegir við að færa safninu dýr og láta safnið vita af merkilegum fundum og ættu þeir miklar þakkir skyldar. Fleiri Suðurnesjamenn ættu hiklaust að leggja leið sína í Fræðasetrið. Þar eru ekki einungis rannsóknarstöð á heimsmælikvarða, heldur einnig stórmerkilegt steinasafn, jurtasafn, uppstoppuð sjávar- og landdýr og margar tegundir lifandi sjávardýra sem margir hafa aldrei litið augum. Vissuð þið að köngulær lifa líka á sjávarbotni? Texti og myndir: Silja Dögg Gunnarsdóttir Erlendir vísindamenn sem dvelja nú í Sandgerði og vinna að margvíslegum rannsóknum. Fv. Kenneth Mei Yee Leung frá Glasgow University, Pablo J. López González frá Sevilla, Elia Sanmartín-Payá frá Valencia, Jörundur Svavarsson frá Háskóla Íslands og Stuart Fleming frá Glasgow University Ása Sigríður Sveinsdóttir, safnvörður á Fræðasetrinu,og Reynir Sveinsson umsjónamaður Fræðasetursins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024