Börnin í Reykjanesbæ halda listahátíð
Listasafn Reykjanesbæjar hefur í samvinnu við alla tíu leikskóla bæjarins unnið að sérstakri listahátíð barna sem opnuð var í Duushúsum síðastliðinn fimmtudag. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er VINÁTTA og eru öll verkin tengd henni. Listahátíð barna er nú haldin í þriðja sinn og hefur farið stækkandi með hverju árinu. Í ár þurfti t.d. að leggja alla sali Duushúsanna ásamt Frumleikhúsinu undir hátíðina, svo mikill er sköpunarkraftur barnanna í bænum.
Listasmiðjan Vinaland verður starfrækt í Bíósal þar sem íbúum bæjarins gefst kostur á að skapa heilt samfélag úr leirfígúrum. Smiðjan verður opin alla hátíðina og foreldrum bent á að opið verður um helgina frá kl. 13 – 17.
Vikuna 4. – 8. maí standa leikskólarnir svo fyrir skemmtidagskrá í Duushúsum og Frumleikhúsinu tvisvar á dag kl. 10.30 og 13.30 þangað sem allir eru velkomnir. Nánari upplýsingar um þær uppákomur er að finna vef listasafnsins, reykjanesbaer.is/listasafn og hjá viðkomandi leikskóla.
Listahátíð barna stendur til föstudagsins 8. maí og er öllum opin.
Opnunartími Duushúsa er frá kl. 11.00 – 17.00 virka daga og kl. 13.00 – 17.00 um helgar.
VF-myndir/elg - Frá setningu listahátíðarinnar.